Hags­muna­sam­tök fyrir­tækja mega tjá sig um mál­efni at­vinnu­lífsins svo lengi sem þau hafi ekki á­hrif á hugsan­legar verð­breytingar aðildar­fyrir­tækja. Þetta segir Páll Gunnar Páls­son, for­stjóri Sam­keppnis­eftir­litsins, í grein sem hann birtir á vef Vísis þar sem hann svarar gagn­rýni Sam­taka At­vinnu­lífsins, Við­skipta­ráðs Ís­lands og Bænda­sam­takanna á til­kynningu Sam­keppnis­eftir­litsins á föstu­dag.

Til­efni til­kynningarinnar var að beina því til hags­muna­aðila að tjá sig ekki í um­ræðum um verð. Hags­muna­sam­tökin sendu frá sér yfir­lýsingu í kjöl­far til­kynningarinnar þar sem ýmsum spurningum var varpað fram.

Í yfir­lýsingu Sam­taka At­vinnu­lífsins og Við­skipta­ráðs Ís­lands var spurt hvort slík hags­muna­sam­tök mættu ekki tjá sig lengur um kannanir um stöðu og horfur í efna­hags­lífinu.

Páll svarar játandi og segir: „Hags­muna­sam­tök mega tjá sig um slíkar kannanir eða versnandi efna­hags­að­stæður. Í þeirri um­fjöllun verða sam­tökin hins vegar að gæta sín í opin­berri um­ræðu eða um­fjöllun á vett­vangi fyrir­tækja um túlkun á niður­stöðum könnunar.“

Þá segir Páll jafn­framt að það sé tölu­verður munur á því hvernig tals­menn hags­muna­sam­taka kjósi að tjá sig: „Það er t.d. munur á annars vegar því hvort tals­maður sam­taka stígur fram og spáir því að fyrir­tæki muni hækka verð eða tjáir sig um nauð­syn þess, og hins vegar því að tals­maðurinn reifi hækkandi hrá­vöru­verð og versnandi að­stæður, en taki um leið fram að það sé fyrir­tækjanna sjálfra að finna leiðir til að bregðast við því, s.s. með hag­ræðingar­að­gerðum eða breytingum á kjörum.“

Hann segir að fyrri val­kosturinn sé var­huga­verður og geti strítt gegn sam­keppnis­lögum vegna þess að aðildar­fyrir­tæki sam­takanna geti „tekið um­mælin sem vís­bendingu um að nú sé tæki­færi til að huga að verð­hækkunum,“ eins og Páll kemst að orði.

Þá segir hann að seinni val­kosturinn feli slíkar vís­bendingar ekki í sér og sé þar með í lagi.

Sam­tök At­vinnu­lífsins og Við­skipta­ráð Ís­lands spyrja enn fremur hvort það sé ekki í lagi lengur að þau tjái sig um vaxta­hækkanir. Páll segir að það sé vissu­lega í lagi, en það sama gildi um það og það sem á undan kom fram – hags­muna­sam­tök verði að gæta að aðildar­fyrir­tækin geti ekki litið á um­fjöllun þeirra sem hvata eða vís­bendingu til verð­breytinga.

Páll bætir jafn­framt við að hags­muna­sam­tök tali í nafni við­komandi greinar og um­mæli þeirra geti því „haft mikil á­hrif á meðal fyrir­tækja.“

Í ljósi þessa segir Páll að erfitt geti reynst fyrir tals­menn hags­muna­sam­taka fyrir­tækja að „feta rétta línu í störfum sínum“ en að sama skapi þurfi að gera kröfu til þess að hags­muna­sam­tök „búi yfir þekkingu og hafi mótað sér innri verk­lags­reglur sem tryggja að starf­semi þeirra sé í sam­ræmi við lög.“

Páll heldur á­fram: „Skilja má yfir­lýsingu SA og VÍ svo að þessu sé á­bóta­vant. Ef sá skilningur er réttur er á­ríðandi að bæta úr því án tafar,“ segir Páll og bætir við: „Það má nefni­lega ekki gleyma því að á­kvæðum sam­keppnis­laga er m.a. ætlað að vernda neyt­endur og stuðla að al­mennri hag­sæld. Hags­muna­sam­tök fyrir­tækja verða að bera virðingu fyrir því.“

Þrátt fyrir erfiðar að­stæður í at­vinnu­lífinu getur af­koma fyrir­tækja verið góð: „Sam­keppnis­eftir­litið dregur ekki í efa að ytri að­stæður í at­vinnu­lífinu geti tíma­bundið verið nei­kvæðar, s.s. vegna hækkunar hrá­vöru­verðs, vöru­skorts o.fl. Ekki má hins vegar gleyma því að af­koma fyrir­tækja á ýmsum mikil­vægum neyt­enda­mörkuðum hefur verið góð, ef marka má ný­leg upp­gjör.“
„Jafn­framt eru víða tæki­færi til hag­ræðingar. Því getur hækkun verðs til neyt­enda ekki verið fyrsti eða eini val­kosturinn fyrir­tækja á sam­keppnis­markaði þegar fást þarf við tíma­bundnar versnandi að­stæður,“ segir Páll enn fremur í pistlinum.

Hann segir að til­kynning Sam­keppnis­eftir­litsins frá því á föstu­daginn síðasta hafi ein­mitt verið til þess fallin að skerpa á þessum reglum. Þá hafi til­kynningin ekki falið í sér „af­stöðu um lög­mæti eða ó­lög­mæti þeirra um­mæla for­svars­manna hags­muna­sam­taka sem vitnað var til. Við­brögðin sýna að þörf var á því að vekja máls á þessum leik­reglum sam­keppnis­laganna,“ segir Páll undir lok pistilsins.