Halldór Kristmannsson, fyrrverandi samskiptastjóri Alvogen og einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman um langt skeið, stofnanda fyrirtækisins, vísar því alfarið á bug að hann hafi fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni, fjárfesti og aðaleiganda Novator, til þess að afla upplýsinga sem gætu nýst honum til að gera kröfur á hendur Alvogen um fjárhagslegt uppgjör sér til handa. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Halldóri.

Markaðurinn greindi í dag frá því að Halldór hefði upplýst um það í viðtölum við lögmannsstofuna White & Case, sem var falið að framkvæma athugun á ásökunum hans á hendur Róberti Wessman, að hann hefði fundað með Björgólfi Thor í nóvember 2020.

Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri, sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og Markaðurinn greindi frá, er fullyrt að samkvæmt lýsingum Halldórs sjálfs hafi tilgangur hans með fundinum verið að „afla upplýsinga í því skyni að reyna að koma sér í aðstöðu sem gæti nýst honum til að gera kröfur á hendur félaginu um fjárhagslegt uppgjör sér til handa.“

Alvogen segir í stefnunni að félagið telji „slík samskipti mjög alvarlegt trúnaðarbrot. Þessi samskipti eru í ljósi ráðningarsamnings og trúnaðarskyldu [Halldórs] með öllu óeðlileg. Þessar upplýsingar komu [Alvogen] í opna skjöldu.“

Halldór segir að rangfærslur séu í stefnunni, sem hann muni frekar gera grein fyrir Héraðsdómi, og umfjöllun Fréttablaðsins um samskipti hans við Björgólf sé ekki rétt. Hann segir að upptaka og handrit séu til af umræddum fundi með rannsóknarnefndinni sem staðfesti eina af mörgum rangfærslum fyrirtækisins. Halldór segir að fyrirtækin hafi umræddar upptökur en honum hafi verið neitað um afrit af þeim.

„Ég var spurður um það sérstaklega hvort ég hafi hitt Björgólf Thor. Ég greindi frá því að ég hafi spurt hann um ósæmilega hegðun Róberts, þegar hann var forstjóri Actavis. Hann hafi staðfest við mig ákveðna atburðarrás í ágúst 2008, sem ég taldi mikilvægt að upplýsa um,“ segir í yfirlýsingu Halldórs.

„Á þessum tíma hafi Róbert hringt í Sigurð Óla Ólafsson, aðstoðarforstjóra Actavis og gert tilraun til að segja honum upp störfum undir áhrifum áfengis. Ég staðfesti við nefndina að Björgólfur Thor hafi umsvifalaust rekið Róbert frá Actavis fyrir þessa ósæmilegu hegðun,“ bætir hann við.

„Ég taldi þessar upplýsingar mikilvægar fyrir rannsókn málsins og sýni að ósæmileg hegðun Róberts nái yfir að minnsta kosti 12 ára tímabil. Björgólfur Thor virðist því vera eini maðurinn sem hafi sýnt kjark til að stöðva ósæmilega hegðun Róberts.“

Þá var greint frá því að Halldór hafi mætt í tvö viðtöl við White & Case í febrúar vegna athugunar stofunnar en hafi hins vegar neitað að mæta í þriðja skiptið. „Það er alrangt og fyrir liggur staðfesting á þessu á upptöku.“

Hallór ítrekar að hann geri engar fjárhagslegar kröfur á hendur Alvogen og Alvotech.

„Ég hef líkt og áður áskilið mér rétt til að sækja bætur til Róberts persónulega, en hef ekki haft uppi sérstakar kröfur í þeim efnum. Tilgangur fundarins með Björgólfi Thor var ekki að knýja fram fjárhagslegt uppgjör og það kemur ekki fram í þeim gögnum, sem fyrirtækin hafa lagt fram í héraðsdómi. Ég ítreka áskorun mína um að fyrirtækin einfaldlega opinberi öll gögn úr yfirheyrslum lögmannstofunnar White & Case.“