Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ekki eiga von á því að breytingar verði á meðferð reikningsskila Félagsbústaða í samstæðu Reykjavíkurborgar í kjölfar álits reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga um samstæðureikning Reykjavíkurborgar. Hann segir að skýrt hafi komið fram í álitinu að borginni sé heimilt að taka uppgjör Félagsbústaða inn í samstæðureikning borgarinnar.

„Þetta eru atriði sem endurskoðendur og endurskoðunarnefnd borgarinnar hefur til skoðunar á hverjum tíma en þessu hefur verið nokkuð skýrt svarað. Í samræmi við 39. grein ársreikningalaga eru fjárfestingareignir Félagsbústaða færðar við gangvirði í samanteknum ársreikningi Reykjavíkurborgar. Í álitinu kemur skýrt fram að heimilt er að beita ofangreindu ákvæði,“ segir Dagur.

Borgarstjórinn bendir einnig á álit reikningsskilaráðs, sem er önnur nefnd skipuð af iðnaðarráðherra, frá því fyrr á þessu ári. „Þar er mælt með því að færa fjárfestingareignir á gangvirði óháð því hver tilgangur með eignarhaldi eignanna er,“ segir hann. Dagur bætir við að endurskoðunarnefnd borgarráðs muni fara yfir málið á næstu dögum.

Í áðurgreindu áliti er tekið fram að Reykjavíkurborg sé heimilt, en ekki skylt, að taka ársreikning Félagsbústaða óbreyttan inn í samstæðureikning borgarinnar. Það sé þó háð þeirri forsendu að starfsemi Félagsbústaða sé skilgreind á sviði fjárfestinga í fjárfestingafasteignum. Í lögum um ársreikninga er hugtakið fjárfestingaeign skilgreind sem „fasteign, land, bygging eða hluti byggingar, sem ætluð er til öflunar tekna, svo sem til útleigu eða í öðru ágóðaskyni, en ekki til notkunar í rekstri eða, þjónustu“.

Dagur segir að í áðurnefndu áliti reikningsskilaráðs komi fram að mælt sé með því að færa fjárfestingaeignir á gangvirði, óháð tilgangi þeirra. „Félagsbústaðir hafa verið að fjárfesta gríðarlega á undanförnum árum í samræmi við hús­­næðis­áætlun borgarinnar og fjölgun félagslegra íbúða. Borgin á því í gegnum Félagsbústaði næstum því 5 prósent alls húsnæðis í Reykjavík,“ segir hann.

Einar S. Hálfdánarson, sem átti sæti í endurskoðunarnefnd borgarráðs, sagði að allar fasteignir Félagsbústaða ætti að færa á afskrifuðu kostnaðarverði, til samræmis við fasteignir borgarinnar sem tilheyra A-hluta borgarsjóðs.

Dagur segir að borginni sé heimilt að færa eignir Félagsbústaða inn á gangvirði, að því gefnu að matsaðferð Félagsbústaða sé hin sama og samstæðureikningur gerir ráð fyrir. Hann hafnar því að blikur séu á lofti um eiginfjárstöðu borgarinnar. „Öllum er það ljóst að gangverð gefur mun betri upplýsingar um raunverulegt verðmæti eignar heldur en afskrifað kostnaðarverð, miðað við aðstæður á Íslandi. Ef það yrði ekki gert myndi gagnsæið minnka og miklar duldar eignir vera í bókum borgarinnar. Eitt af grundvallarhugtökum reikningsskila er að þau gefi sem gleggsta mynd af öllum stærðum, þar á meðal eignum, skuldum og eigin fé.“

Dagur segir fjárfesta ánægða. „Fjárfestar sem eiga skuldabréf Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hafa verið mjög sáttir við að fylgt sé alþjóðlegum reikningsskilareglum varðandi Félagsbústaði en ekki einhverjum sérsmíðuðum eða sérviskulegum útúrdúrum sem gera ársreikninga ólæsilega og ósambærilega við hefðbundin uppgjör. Enda hafa ekki komið óskir frá fjárfestum um að breyta uppgjörsaðferðum Félagsbústaða, þvert á móti. Fjárfestar hafa líka verið mjög ánægðir með þá faglegu styrkingu sem skipun endurskoðunarnefndar hefur haft í för með sér. Það er valinn maður í hverju rúmi þegar kemur að uppgjörum og endurskoðun hjá borginnni.“