Stjórn fjár­festingar­sjóðsins GAMMA hefur ráðið endur­skoðunar­fyrir­tækið Grant Thornton sem ó­háða sér­fræðinga til að fara yfir mál­efni Novus og Upp­hafs. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri frétta­til­kynningu.

Líkt og fram hefur komið á vef Frétta­blaðsins hafa helstu skulda­bréfa­eig­endur fast­eigna­fé­lagsins Upp­hafs sem er í eigu sjóðsins Novus í stýringu GAMMA, gefið vil­yrði um að leggja fé­laginu til aukið fjár­magn með kaupum á for­gangs­skulda­bréfi að fjár­hæð sam­tals einni milljón króna.

Í til­kynningu frá stjórninni kemur fram að frá því í júlí hafi nýtt stjórn­enda­t­eymi GAMMA unnið að því að endur­meta stöðu NOVUS og Upp­hafs. Þá kemur fram að stjórnin líti á þá stöðu sem kom í ljós við endur­mat mjög al­var­legum augum, Fjár­mála­eftir­litið hafi verið upp­lýst og í fram­haldinu fjár­festar og skulda­bréfa­eig­endur.

Þá kemur fram að stjórnin hafi eins og áður segir ráðið Grant Thornton sem ó­háða sér­fræðinga til þess að fara yfir mál­efni Novus og Upp­hafs. Kemur fram að á grund­velli niður­stöðu út­tektar þeirra verður lagt mat á hvaða frekari að­gerða verður gripið til að upp­lýsa um málið. Jafn­framt munu stjórn­endur vinna með hag­höfum að frekari upp­lýsinga­öflun og verður fundur eig­enda sjóðsins boðaður innan skamms.

„Frá því í júlí höfum við unnið að endur­mati á stöðu fast­eigna­fé­lagins Upp­hafs. Sam­þykki kröfu­hafa fé­lagsins fyrir skil­mála­breytingum er mikil­vægt skref í átt að við­bótar­fjár­mögnun sem tryggir fram­gang verk­efna og há­mörkun eigna eins og nýtt stjórn­enda­t­eymi hefur lagt á­herslu á. Við munum á­fram kapp­kosta að reka smiðs­höggið á endur­skipu­lagningu fé­lagsins sem fyrst og við munum á­fram leggja á­herslu á að komast til botns í því hvað fór úr­skeiðis og upp­lýsa hag­hafa um það,“ er haft eftir Mána Atla­syni, fram­kvæmda­stjóra GAMMA.