Ný lagabreyting, sem heimilar lífeyrissjóðum að fjárfesta í ákveðnum kaupréttum, felur ekki í sér heimild til að fjárfesta í söluréttum af sama tagi. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vannst ekki nægt svigrúm til þess að meta hvort auknar fjárfestingaheimildir sjóðanna ættu einnig að ná til sölurétta en málið verður tekið til skoðunar.

„Það að auknar heimildir nái einungis til kauprétta þýðir að einungis eru leyfðar afleiður sem geta ýtt undir eignabólur. Það vantar mótvægið – sölurétti – þannig að hægt sé að taka stöðu með því að eignaverð lækki,“ segir viðmælandi Markaðarins á fjármálamarkaði.

Frumvarp um breytingar á lögum um heimildir lífeyrissjóða var lagt fram og samþykkt í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandair Group sem hefst í dag. Hverjum seldum hlut í hlutafjárútboðinu fylgja áskriftarréttindi sem teljast afleiður í skilningi laganna. Þar sem heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum voru háðar því skilyrði að þær drægju úr áhættu sjóðs var talið mikilvægt að breyta lögunum áður en útboðið færi fram.

Þar sem heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í afleiðum voru háðar þröngum skilyrðum var talið mikilvægt að breyta lögunum fyrir útboð Icelandair

Frumvarpinu var meðal annars ætlað að veita lífeyrissjóðunum möguleika á að hljóta ábata af hagfelldri verðþróun eigna þar sem tapsáhætta er takmörkuð.

„Með því að opna á möguleika lífeyrissjóða til þess að eignast afleiður sem fela aðeins í sér rétt til að kaupa aðra eign eða áskriftarréttindi að henni, aukast möguleikar þeirra til áhættudreifingar og ábatasamra fjárfestingartækifæra,“ segir í frumvarpinu.

Við vinnslu málsins fékk efnahags- og viðskiptanefnd á sinn fund fulltrúa frá Landssamtökum lífeyrissjóða sem lögðu til við nefndina að notast yrði við hugtakið „valréttarsamningur“ í frumvarpinu. Þannig næði heimildin jafnt til kaup- og söluréttar sem væri í samræmi við markmið frumvarpsins. Þá stæðu rök til þess að sömu reglur giltu um skuldabréf með breytirétti enda væru þau nátengd áskriftarréttindum og rétt að taka af vafa um heimildir lífeyrissjóða til slíkra fjárfestinga.

Nefndinni vannst ekki nægt svigrúm innan þess tíma sem gafst við vinnslu frumvarpsins til að leggja fullnægjandi mat á framangreindar tillögur og hafa um þær nauðsynlegt samráð við sérfræðinga og hagaðila.

„Meiri hluti nefndarinnar, sem stendur að framlagningu frumvarpsins, telur þó ríkt tilefni til að slík vinna fari fram. Leggur meiri hlutinn til að nefndin hafi samráð um þá vinnu, meðal annars við ráðuneytið og Seðlabanka Íslands, á komandi löggjafarþingi,“ segir í umfjöllun um störf efnahags- og viðskiptanefnda.