Rio Tinto hefur lagt fram formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess sem fyrirtækið kallar „misnotkun“ Landsvirkjunar á stöðu sinni gagnvart ISAL. Í tilkynningu frá Rio Tinto segir að fyrirtækið fari fram á að tekið verði á „samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum, svo að álver ISAL og önnur íslensk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi“.

Það er þannig mat Rio Tinto að mismunandi verð í raforkusamningum Landsvirkjunar feli í sér mismunun gagnvart viðskiptavinum og að Landsvirkjun misnoti þannig markaðsráðandi stöðu sína sem sé óréttlætanleg háttsemi. „Samningar Landsvirkjunar binda viðskiptavini til langs tíma og hindra önnur orkufyrirtæki annað hvort í að koma inn á íslenskan markað eða auka starfsemi,“ segir í tilkynningunni.

Rio Tinto segir að þrátt fyrir ítrekaða viðleitni sína til að koma á uppbyggilegu samtali við Landsvirkjun hafi fyrirtækið nú komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun sé ekki tilbúið að bæta núverandi raforkusamning, sem geri fyrirtækið „sjálfbært og samkeppnishæft og taki á skaðlegri hegðun og mismunun Landsvirkjunar gagnvart ISAL“. Þannig segist Rio Tinto vilja tryggja þau 500 störf innan álversins sem eru í húfi en í vor var greint frá því að fyrirtækið skoðaði að loka starfsemi sinni í Straumsvík til tveggja ára.

„Þann 12. febrúar tilkynnti Rio Tinto um sérstaka endurskoðun á starfsemi álvers ISAL í Straumsvík. Rio Tinto hefur lokið fyrsta áfanga stefnumótandi endurskoðunar með kvörtun til Samkeppniseftirlitsins. Láti Landsvirkjun ekki af skaðlegri háttsemi sinni, hefur ISAL ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og virkja áætlun um lokun álversins,“ segir í tilkynningunni.

Þá er eftirfarandi haft eftir Alf Barrios, forstjóra Rio Tinto Alumnium:

„Það þarf að taka á misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu sinni á íslenskum orkumarkaði. Af öðrum kosti á Ísland á hættu að glata stórum útflutningsfyrirtækjum á borð við ISAL í Straumsvík. ISAL greiðir umtalsvert meira fyrir orku sína en aðrir álframleiðendur á Íslandi sem grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Við getum ekki haldið áfram að framleiða ál á Íslandi sé verðlagning orkunnar ekki gagnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf. Í millitíðinni munu teymi okkar hjá ISAL halda áfram að einbeita sér að því að draga úr kostnaði á öruggan hátt, bæta framleiðni og standa við skuldbindingar okkar gagnvart viðskiptavinum.“