Breski auðkýfingurinn Richard Branson hefur hætt viðræðum við ríkisfjárfestingasjóð Sádi-Arabíu um fjárfestingu sjóðsins í félögum Virgin-samsteypunnar og sagt sig úr tveimur ráðgjafaráðum eftir hvarf sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggis.

Í tilkynningu sem Branson sendi Financial Times segist hann hafa á sínum tíma þegið með ánægju boð í tvö ráðgjafaráð, sem tengjast ferðaþjónustuverkefnum í grennd við Rauða hafið, þar sem hann hefði bundið „miklar vonir“ við sádiarabísk yfirvöld undir stjórn krónprinsins Mohammad bin Salman.

Branson segir hins vegar að hvarf blaðamannsins, sem var jafnframt nafntogaður gagnrýnandi sádiarabískra stjórnvalda, muni gera sér og öðrum erfitt fyrir að eiga í viðskiptum við yfirvöld í landinu.

„Við höfum óskað eftir frekari upplýsingum frá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu og krafist þess að þau útskýri stöðu sína í tengslum við Khashoggi,“ segir Branson.

Branson ferðaðist til Sádi-Arabíu í fyrra og greindi síðan frá því í október síðastliðnum að ríkisfjárfestingasjóður landsins hefði í hyggju að fjárfesta fyrir um einn milljarð dala, jafnvirði 116 milljarða króna, í félögunum Virgin Galactic og Virgin Orbit. Fjárfestingin er háð samþykki bandarískra stjórnvalda.

Washington Post greindi frá því fyrr í vikunni að tyrknesk stjórnvöld hefðu tilkynnt Bandaríkjastjórn að þau hefðu undir höndum myndbönd og hljóðupptökur af því þegar Khashoggi var pyntaður og myrtur í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl.

Sádiarabísk stjórnvöld hafa hafnað ásökununum um að hafa myrt Khashoggi og ítrekað að hann hafi yfirgefið ræðismannsskrifstofuna einn síns liðs skömmu eftir að hann kom þangað.