Sverrir Örn Þorvaldsson, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri áhættustýringar Íslandsbanka undanfarin átta ár, hyggst láta af störfum hjá bankanum í næsta mánuði.
Sverrir Örn greinir frá þessu á LinkedIn-síðu sinni en hann hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans í tólf ár. Lætur hann formlega af störfum hjá bankanum í lok september.
Áður en hann hóf störf hjá bankanum starfaði Sverrir Örn hjá Íslenskri erfðagreiningu í sex ár við rannsóknir, gagnaúrvinnslu og hugbúnaðargerð.
Sverrir er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands, MS-gráðu í fjármálastærðfræði og Ph.D. í stærðfræði, bæði frá Stanford háskóla í Kaliforníu. Hann hefur auk þess lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og faggildingu í fjármálalegri áhættustýringu (FRM) á vegum GARP.

Athugasemdir