Bjørn Kjos hefur látið af störfum sem forstjóri norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian Air. Hinn 72 ára Kjos er einn stofnenda flugfélagsins og hefur veitt því forystu í 17 ár.

„Það ætti enginn að stýra flugfélagi eftir að hafa náð 70 ára aldri. Það er kominn tími á mig,“ sagði Kjos þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína.

Hann kveðst takast á við nýjar áskoranir, fullur tilhlökkunar. Geir Karlsen tekur við sem starfandi forstjóri á meðan leitin að arftaka Kjos stendur yfir.

Norwegian, líkt og mörg önnur flugfélög, hefur ekki farið varhluta af vandræðunum í kringum Boeing 737 MAX vélarnar sem kyrrsettar er um heim allan.

Félagið er með 18 slíkar vélar í flota sínum. Gert er ráð fyrir að kyrrsetningin standi yfir út október þessa árs, hið minnsta. Norwegian hefur ráðgert að kyrrsetningin gæti komið til með að kosta félagið 700 milljónir norskra króna, jafnvirði um 10,3 milljarða íslenskra króna.

En ekki verður deilt um öran vöxt Norwegian á undanförnum árum. Félagið, sem er þriðja stærsta lággjaldaflugfélagið í Evrópu, bætti til að mynda 35 áfangastöðum í fyrra og flutti yfir 37 milljónir farþega.