Landsbankinn hætti ekki að lána til íbúðaverkefna og tók ekki ákvörðun um að draga saman í útlánum til slíkra verkefna. Þetta kemur í svari frá bankanum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði við Stöð 2 fyrr í mánuðinum að hik bankanna við að lána til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis frá árinu 2019 og vaxtalækkanir húsnæðislána á síðasta ári væri aðalástæðan fyrir skorti á íbúðarhúsnæði nú. „Bankarnir hættu eða drógu verulega saman í lánum til nýrra íbúðaverkefna fyrir um tveimur árum. Þeir töldu þá að það væru svo margar íbúðir að koma inn á markaðinn að það yrði offramboð. Þetta breyttist með vaxtalækkuninni, “ sagði hann.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

Landsbankinn segir að útlán til byggingarverktaka hafi numið um 87 milljörðum króna árið 2018, 98 milljörðum króna árið 2019 og 82 milljörðum árið 2020. „Mikil sala íbúða og margfalt meiri eftirspurn fyrstu kaupenda gerði það að verkum að verktakar gátu selt fleiri íbúðir og þannig losað um fé til að halda áfram uppbyggingu, sem bankinn hefur stutt með lánveitingum. Eftirspurn eftir lánum til uppbyggingar fer eftir ýmsum þáttum, meðal annars framboði lóða og getu verktaka til að taka að sér ný verkefni. Eftirspurnin hefur verið nokkuð jöfn og við höfum ekki orðið vör við sérstakar breytingar á henni undanfarið. Landsbankinn er leiðandi viðskiptabanki á verktakamarkaði, hefur þjónað þessum geira vel og mun áfram lána traustum verktökum í góð byggingarverkefni,“ segir í svarinu.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Ljósmynd/Aðsend

Arion banki segist horfa jákvæðum augum á lánveitingar til íbúðabygginga og það hafi hann alltaf gert. Bankinn sé nú sem fyrr reiðubúinn að lána til slíkra framkvæmda.

„Snemma á þessu ári gerði bankinn breytingar á ferlum til þess að liðka fyrir fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Þetta var meðal annars gert í ljósi þess að markaðurinn hefur ekki náð að anna eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Markmið breytinganna var að auka aðgengi verktaka að lánsfjármögnun meðan á framkvæmdatíma stendur. Undanfarna mánuði höfum við séð umtalsverða aukningu bæði í eftirspurn eftir framkvæmdalánum og í lánveitingum bankans til slíkra verkefna,“ segir í svari frá Arion.

Íslandsbanki hefur verið virkur í lánveitingum til íbúðarfjárfestinga, segir í svari frá bankanum. „Öll slík tækifæri hafa verið og eru skoðuð með opnum hug,“ segir í svarinu.