Talið er að um eitt af hverjum sjö litlum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, eða alls um 850.000 fyrirtæki, hafi verið lokað varanlega í lok ágúst. Aðgerðapakki stjórnvalda hafi skilað árangri síðastliðið vor en að áhrifa hans sé nú hætt að gæta og þörf sé á nýjum aðgerðum til að verja störf, segir í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins.

Ekki liggur fyrir sambærilegt mat fyrir Ísland en áhugavert er að skoða hvað þetta myndi þýða ef staðan væri sú sama hér. Yfirleitt er miðað við að örfyrirtæki og lítil fyrirtæki séu þau sem hafa hafa 49 starfsmenn eða færri. Þau sjá um 52 prósent launafólks fyrirtækja fyrir vinnu og greiða um 45 prósent launa fyrirtækja á Íslandi. Fyrirtækin eru 21.000 með um 80.000 launþega og greiða 414 milljarða í laun á ári. „Einn sjöundi hluti þess er þá um 3.000 fyrirtæki með 11.000 launþega og 60 milljarða í laun,“ segja Samtök atvinnulífsins. .

Mynd/Samtök atvinnulífsins

„Við göngum nú í gegnum verstu kreppu í heila öld. Veruleg hætta er á að mörg fyrirtæki muni skella varanlega í lás. Því fleiri sem þau verða því fleiri störf tapast og því lengur mun atvinnuleysið vara. Þetta þurfa stjórnvöld að hafa í huga. Til skamms tíma er forgangsverkefni að fyrirtæki sem voru lífvænleg fyrir kreppuna geti lagst í hýði svo þau geti auðveldlega hafið starfsemi þegar aðstæður lagast. Til lengri tíma er forgangsverkefni að gera skatta- og lagaumhverfi þannig úr garði að auðvelt sé að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi. Það er forsenda þess að verja og skapa störf,“ segir í tilkynningunni.