Hætta er á því að framboð veigamikils hluta íbúða sem nú eru á teikniborðinu og í byggingu geti orðið mun meira en eftirspurn á næstu árum.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar kemur fram að þær þúsundir íbúða sem verið er að byggja á höfuðborgarsvæðinu séu „væntanlega of stórar og dýrar“ til að leysa þann vanda sem fyrir er. Auk þess hafi allar þær tillögur, sem hafa verið lagðar fram til þess að leysa meintan vanda, snúið í þá átt að það þurfi að stórauka byggingu á litlu og hentugu húsnæði.

Vísað er til nýjustu upplýsinga Samtaka iðnaðarins um byggingarmagn frá því í mars 2019. Samkvæmt þeim eru byggingar íbúðarhúsnæðis enn að aukast en heldur hægir á vextinum.

„Þannig jókst fjöldi íbúða í byggingu sem eru fokheldar og lengra komnar um 12% frá síðustu mælingu í október 2018, en íbúðum sem ekki voru orðnar fokheldar fækkaði um 4%. Þetta bendir sterklega til þess að frekar sé verið að draga út starfsemi en hitt,“ segir í Hagsjá.

„Þessi þróun sést enn betur ef einungis er litið til byggingar á fjölbýli, en þar fjölgaði íbúðum sem voru fokheldar og lengra komnar um 24%, en íbúðum að fokheldu fækkaði um 12%. Það lítur því út fyrir að verkefni í fjölbýli fari síður af stað en verið hefur.“