Gunnar Steinn Magnússon tók við stöðu framkvæmdastjóra ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækisins Expectus um síðustu mánaðamót. Hann segist alltaf hafa átt þann draum að reka rólegt kaffihús á fáförnum stað.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég les mikið af bókum um allt milli himins og jarðar og finnst gaman að kynna mér nýja hluti. Undanfarin ár hef ég haft mikinn áhuga á því að elda góðan mat og hitta vini sem er töluvert langt frá unglingnum Gunnari Steini sem vildi helst bara tala við tölvur.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Sem styst. Ég er að reyna að koma fyrir rólegum kaffibolla og lestri á dagblöðum í morgunrútínunni en oftar en ekki drepur snooze-takkinn þann draum. En svo er það á leikskólann með drenginn og til vinnu.

Hvaða ráðstefnu eða fyrirlestur sóttirðu síðast?

Fór á frábæra ráðstefnu Ský – Með puttann á púlsinum. Þar voru meðal annars nokkrir góðir fyrirlestrar um tæknibyltinguna sem fram undan er.

Hvaða bók ertu að lesa eða last síðast?

Ég reyni alltaf að lesa bæði viðskipta- og afþreyingarbók á sama tíma og er rétt í þessu að klára tvær bækur. Measure What Matters eftir John Doerr sem er um aðferð til að skilgreina og nota árangursmælikvarða í anda Intel og Google. Samhliða því er ég að lesa skáldsöguna Dune eftir Frank Herbert. Klassísk bók um valdabaráttu.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í starfinu?

Ég held að það sé hættan á því að týnast í hvirfilvindinum í vinnunni í stað þess að fókusa á þau verkefni sem mikilvægust eru til að ná árangri. Ég er svo lánsamur að fá að vinna með hæfileikaríku og kraftmiklu fólki og hef fulla trú á því að framtíðin sé björt hjá okkur.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrarumhverfinu?

Sú stafræna bylting sem hefur verið að skella á okkur undanfarin ár hefur gert það að verkum að einstaklingar og fyrirtæki eru farin að nýta sér þjónustu fyrirtækja þvert á landamæri. Þessi breyting hefur orðið til þess að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur orðið flóknari, samkeppnisaðilar fleiri og að einhverju marki komið niður á afkomu þeirra.

Þessi nýi raunveruleiki hjá mörgum íslenskum fyrirtækjum krefst breyttrar hugsunar og nýrrar nálgunar í þjónustu við viðskiptavini þar sem persónuleg þjónusta verður sífellt stafrænni, byggð á gögnum og greiningum. Að mínu mati felst stærsta áskorun fyrirtækja í dag í því að endurhanna viðskiptaferla, þjálfa starfsfólk og uppfæra tæknibúnað með gögn og greiningar sem hjarta starfseminnar án þess að missa boltann í daglegum rekstri.

Hvaða breytingar sérðu fyrir þér hjá Expectus á næstu árum?

Frá því að Expectus hóf starfsemi fyrir um það bil 10 árum höfum við séð hraðar breytingar á þeirri ráðgjöf, lausnum og þjónustu sem okkar viðskiptavinir hafa verið að leita eftir. Í dag er stefnumótun fyrirtækja í auknum mæli farin að huga að stafrænni framtíð og þjónustuveitingu, oft með áherslu á innleiðingarhluta stefnunnar. Þetta hefur gert þær kröfur til okkar að geta mætt þeim þörfum með viðeigandi hugbúnaðarlausnum og ráðgjöf. Með breyttum heimi hlöðnum IoT, róbótum og gervigreind þá er von á byltingu í gagnamagni hjá fyrirtækjum og það getur gefið þeim einstaka hæfileika til að greina og skilja tækifæri í rekstrinum. Það verður mikil áskorun hjá okkur að halda áfram að vera leiðandi hér á landi í að hjálpa viðskiptavinum okkar að móta skýra framtíðarsýn og hafa tól og tæki til þess að fylgja henni eftir með viðeigandi lausnum í stafrænum heimi.

Ef þú þyrftir að velja allt annan starfsframa, hver yrði hann?

Ég hef alltaf átt mér þann draum að reka rólegt kaffihús á fáförnum stað. Ég veit samt ekki hversu lengi ég myndi endast áður en ég væri byrjaður að þróa aftur einhverjar lausnir.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég vona að ég verði enn að vinna með góðu fólki í hugbúnaðargerð. Það var draumurinn þegar ég var 10 ára og er það enn.

Helstu drættir


Nám:

• B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands

• M.Sc. í hugbúnaðarverkfræði frá Technical University of Denmark

• MBA-nám frá Háskólanum í Reykjavík

Störf:

• Hugbúnaðarþróun hjá Mod­ernus frá 2002 til 2006

• Hugbúnaðarþróun fyrir Verðbréfasvið Landsbankans frá 2006 til 2008

• Hugbúnaðarþróun á getraunalausnum hjá Betware árið 2009

• Hugbúnaðarþróun, ráðgjöf, sala og markaðsmál hjá Ex­pectus 2009 til 2018

• Ráðinn framkvæmdastjóri Expectus haustið 2018

Fjölskylduhagir:

Kvæntur Kristínu Guðlaugsdóttur ferðamálafræðingi og við eigum einn dreng, Kára, sem er 5 ára og á fullu að læra á lífið.