Í gær hækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína í níunda sinn frá því í maí í fyrra og í fimmta sinn á þessu ári. Áhrifin eru mest á lán sem eru með breytilega vexti, eins og áður.

Sem dæmi um breytingar á greiðslubyrði var afborgun af 40 milljóna króna óverðtryggðu húsnæðisláni með breytilegum vöxtum og jöfnum greiðslum, tekið á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 til 40 ára, 152.697 krónur en væri 260.407 ef það yrði tekið í dag.

„Annars munu vextir haldast háir og heimilin súpa seyðið af því“

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir vaxtahækkunina vera einn eitt höggið fyrir fólk með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. „Í þessum hópi eru jafnvel tiltölulega tekjulág heimili sem skriðu í gegnum greiðslumat á Covid-tímanum, fólk sem tók mark á yfirlýsingum um að við værum að sigla inn í varanlegt lágvaxtaumhverfi og horfir núna upp á greiðslubyrðina hækka ævintýralega, jafnvel um meira en hundrað þúsund krónur á mánuði.“

Áður hefði vaxtabótakerfið gripið þessi heimili, segir Jóhann. „En ríkisstjórnarflokkarnir hafa brotið það niður og í staðinn beint húsnæðisstuðningi til tekjuhærri heimila í formi skattfríðinda vegna séreignarsparnaðar.“

Jóhann kallar eftir markvissum aðgerðum til að að verja skuldsett og tekjulág heimili. Hann segir að til að slíkar stuðningsaðgerðir hafi ekki þensluáhrif verði að fjármagna þær með hærri sköttum „á breiðu bökin“.

„Það verður nefnilega líka að taka slaginn gegn verðbólgunni á ríkisfjármálahliðinni, annars munu vextir haldast háir og heimilin súpa seyðið af því,“ segir Jóhann Páll.

Enn erfiðara fyrir fyrstu kaupendur að komast inn

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs hjá Íslandsbanka, segir að hækkanirnar og örar breytingar á vaxtamarkaði muni hafa þau áhrif að það verði enn erfiðara fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn. „Og það er áhyggjuefni,“ segir hún.

Spurð út í stöðu fólks sem hafi kannski keypti fyrir ári sína fyrstu eign, fengið greiðslumat og eigi núna í erfiðleikum segir Sigríður að því standi ýmsir valkostir til boða. Það þurfi ekki endilega að selja.

„Það sem var það frábæra við vaxtastigið eins og það var, var að það var raunhæfur kostur að fara í óverðtryggt lán því þannig er eignamyndunin oftast nær hraðari. En það sem er að gerast núna þegar vaxtastigið er orðið hátt í óverðtryggðum lánum er að færri hafa efni á að vera með þannig lán sökum aukinnar greiðslubyrðar en þá er hægt að skoða endurfjármögnun.

Enn fremur geta fyrstu kaupendur nýtt úrræði ríkisins og ráðstafað hluta af séreignarsparnaði inn á mánaðarlegar afborganir óverðtryggðra lána, sem getur kannski dugað í einhverjum tilfellum án þess að færa sig á milli lánsforma,“ segir Sigríður Hrefna og að það ferli sé orðið miklu einfaldara en það var áður.

„Fólk getur leitað í verðtryggt skjól en það er ekkert óskastaða að fólk flykkist þangað. En það er óhjákvæmilegt að það gerist,“ segir Sigríður og bendir á að fólk geri það nú í auknum mæli.

Hún segir að enn sjáist ekki nein merki um væntanlega greiðsluerfiðleika og að enn séu vanskil og fyrirspurnir tengdar þeim og greiðsluerfiðleikum í sögulegu lágmarki hjá bankanum.

„Fólk ræður enn við afborganirnar og vaxtahækkanir en það þrengir að annars staðar,“ segir hún og að fólk hafi búið við ákveðin kjör, getað leyft sér eitthvað, en að það sé mögulega að breytast núna. „Það þrengir að og fólk lætur lánið ganga fyrir því þetta eru heimili þess.“