Verð hlutabréfa í Íslandsbanka hefur tekið hressilegan kipp í viðskiptum í Kaupahöllinni í dag og er gengið bréfanna nú hærra en nokkru sinni fyrr.

Gengi bréfanna í lok dags er 114,0 eftir að hafa staðnæmst í kring um 108 stig í nokkurn tíma skömmu eftir útboð ríkisins á hluta bréfa í bankanum sem lauk 15. júní. Lokagengið þá var 79 og hafa bréfin því hækkað um 44,3 prósent til dagsins í dag. Hækkunin í dag var 3,64 prósent.

Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfunum í Íslandsbanka í útboðinu en allir sem vildu kaupa fyrir eina milljón króna eða minna fengu þau bréf sem þeir óskuðu eftir. Þetta þýðir meðal annars að sá sem keypti bréf fyrir eina milljón króna í útboðinu getur nú selt þau sömu bréf fyrir 1.443.000 - eða með 443 þúsund króna hagnaði með öðrum orðum.