Markaðurinn

Hækkunin hér sú mesta innan OECD

Hvergi innan aðildarríkja OECD hækkaði íbúðaverð frá þriðja ársfjórðungi 2016 til þriðja fjórðungs 2017 eins mikið og hér á landi. Raunhækkunin á Íslandi var 24,9 prósent en 2,9 prósent á evrusvæðinu. Hagfræðingur segir ljóst að íbúðaverð sé orðið mjög hátt.

Íbúðaverð hefur hækkað að raunvirði víða um heim undanfarin ár en hækkunin hefur hvergi verið meiri innan OECD-ríkja en hér á landi. Fréttablaðið/Vilhelm

Raunhækkun íbúðaverðs var hvergi meiri innan aðildarríkja OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, frá þriðja fjórðungi 2016 til þriðja fjórðungs 2017 en hér á landi. Alls hækkaði íbúðaverð hér um 24,9 prósent að raungildi á tímabilinu en næstmesta hækkunin var í Kanada þar sem verðið fór upp um 11,7 prósent.

Raunhækkunin var að meðaltali 3,5 prósent innan OECD-ríkjanna og 2,9 prósent á evrusvæðinu.

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics, segir í samtali við Markaðinn athyglisvert hvað Ísland sker sig úr í samanburði við önnur OECD-ríki þegar litið er til íbúðaverðshækkana á síðasta ári. Ljóst sé að íbúðaverð sé orðið mjög hátt.

„Maður átti kannski von á að það færi að hægja á hækkununum en þær voru afar miklar í fyrra. Tölur OECD sýna að raunverð íbúðarhúsnæðis hækkaði hvergi meira á öðrum og þriðja fjórðungi síðasta árs en hér á landi.“

Hann bendir auk þess á að frá því að íbúðaverð hér á landi náði lágmarki á fyrsta ársfjórðungi 2010 hafi það hækkað um 64 prósent að raungildi. Það sé meiri hækkun en í öðrum OECD-ríkjum. Næstmesta hækkunin hafi verið í Ísrael þar sem íbúðaverð hafi farið upp um tæp 55 prósent frá fyrsta fjórðungi 2010.

Íbúðaverð hefur farið hækkandi víða um heim á undanförnum árum. Það helgast aðallega af því að vaxtastig hefur víðast hvar verið mjög lágt og þannig auðvelt fyrir fólk að fjármagna íbúðakaup. Auk þess hafa borgir farið stækkandi og spurn eftir íbúðum í þéttbýli stóraukist. Tölur OECD endurspegla þessa þróun.

Sé litið til helstu nágrannalanda Íslands hefur íbúðaverð hækkað að raungildi – frá því á fyrsta fjórðungi 2010 – um 49 prósent í Svíþjóð, 30 prósent í Noregi og 11 prósent í Danmörku, svo fáein dæmi séu tekin. Eins og áður sagði hefur raunhækkunin á sama tíma verið 64 prósent hér á landi.

Aðspurður segir Magnús Árni nokkra áhrifaþætti hafa stuðlað að verðhækkunum síðustu ára. „Það hefur verið mikill og viðvarandi framboðsskortur. Við höfum verið sein að byggja og ekki getað mætt þörfum stórra árganga ungs fólks sem íhugar fasteignakaup. Síðan hefur kaupmáttur vaxið hratt og raunvextir lækkað. Einnig má ekki gleyma stórsókn lífeyrissjóðanna á íbúðalánamarkaðinn sem hefur átt sinn þátt í hækkununum.“

Þrátt fyrir miklar verðhækkanir segist Magnús Árni ekki eiga von á neinu verðfalli á íbúðum. Áfram sé gert ráð fyrir hækkunum enda sé eftirspurnin mikil og framboðstregða einkenni enn markaðinn.

Fram kom í húsnæðisskýrslu Íbúðalánasjóðs, sem birt var í gær, að vísitala ásetts verðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu, sem reiknuð er af hagdeild sjóðsins, hefði hækkað um 1,0 prósent í síðasta mánuði eftir að hafa haldist nokkurn veginn óbreytt á seinustu mánuðum síðasta árs. Vísitala íbúðaverðs, sem mælir söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, hækkaði einnig um 1,0 prósent í janúar og hefur hún ekki hækkað meira á milli mánaða síðan í maí í fyrra.

Hækkunin var heldur meiri í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða 2,0 prósent í janúarmánuði. Frá því í janúar 2016 hefur ásett verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 31 prósent en um 43 prósent í nágrannasveitarfélögunum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Íslensk verðbréf kaupa Viðskiptahúsið

Innlent

Icelandair hækkar í fyrstu viðskiptum

Innlent

Ásett fer­metra­verð ný­bygginga hækkað í borginni

Auglýsing

Nýjast

Mun líklegri til að skilja við maka en skipta um banka

Hvítbókin: Ríkið selji í bönkunum

SFS segir alvarlegt að Ágúst fari rangt með mál

Hagkerfið tapar milljörðum á umferðartöfum

Seðlabankinn skýri stefnu sína um inngrip

Kaupir skulda­bréf til baka fyrir 21 milljarð króna

Auglýsing