Hlutabréf í Bandaríkjunum hafa hækkað mun meira á undanförnum 120 árum en í öðrum löndum. Munurinn getur verið allt að 50 prósent. Á tímabilinu er raunávöxtun hlutabréfa í Bandaríkjunum 6,5 prósent en að meðaltali hefur heimsvísitalan hækkað um 4,5 prósent. Þetta segir Sigurður B. Stefánsson sem lengi hefur starfað á fjármálamarkaði og var um árabil framkvæmdastjóri VÍB.

Hann hefur gefið út nýja bók, Hlutabréf á heimsmarkaði – eigna­stýring í 300 ár, ásamt Svandísi Rún Ríkarðsdóttur, sviðsstjóra eignastýringar hjá Lífeyrissjóðnum Brú. Fyrir fimm árum gáfu þau út bókina Lesið í markaðinn.

„Í fyrri bók okkar Svandísar, Lesið í markaðinn, erum við að rekja hvernig mismunandi aðferðir sem beitt er við val og stýringu á hlutabréfum urðu til í tímans rás, það er sögulega. Í mínum huga er nauðsynlegt að kunna skil á því efni til að skilja hvers vegna mismunandi aðferðum er beitt,“ segir Sigurður. „Í bókinni Hlutabréf á heimsmarkaði er áherslan á fjárfestingu og eigna­stýringu á alþjóðlega markaðnum, það er hvernig hlutabréf eru valin og þeim stýrt þegar mörg lönd og fjölmargir gjaldmiðlar koma við sögu,“ segir hann.

Sigurður segir að á 120 ára tímabili hafi ávöxtun skuldabréfa verið um þriðjungur af ávöxtun hlutabréfa. Undanfarna fjóra áratugi hafi vextir farið lækkandi í heiminum. Árið 1986 hafi til að mynda verið hægt að fá 8,5 prósenta raunávöxtun á spariskírteinum ríkissjóðs. „Lækkandi vöxtum hefur fylgt gengishagnaður af skuldabréfum. Nú eru vextir í sögulegu lágmarki en þó farnir að hækka. Afleiðing er sú að skuldabréf skila ekki góðri ávöxtun og hækkandi vöxtum fylgir gengistap á skuldabréfum. Það er því ekki líklegt að þennan áratug geti skuldabréf staðið undir uppbyggingu eigna. Þess vegna hlýtur áherslan að vera á hlutabréf eins og endurspeglast hefur á hlutabréfamarkaði undanfarin tvö ár eða svo, bæði hérlendis og í Bandaríkjunum,“ segir hann.

„Það er því ekki líklegt að þennan áratug geti skuldabréf staðið undir uppbyggingu eigna.“

Svandís segir æskilegt fyrir fjárfesta að líta út fyrir landsteinana þegar fjárfest sé í hlutabréfum til að auka áhættudreifingu í ljósi þess hve íslenski markaðurinn er lítill. Sigurður segir að boðskapur bókarinnar sé að heimsmarkaður sé okkar heimamarkaður vegna þess hve mikið heimurinn hefur skroppið saman með fjarskiptatækni.

Svandís segir að besta leiðin til að meta alþjóðlega markaði sé að horfa til hlutfallslegs styrks þegar alþjóðleg eignasöfn séu sett saman. Með því á hún við að rýna í hvaða markaðir hafi hækkað mest á tilteknu tímabili.

Svandís segir æskilegt fyrir fjárfesta að líta út fyrir landsteinana þegar fjárfest sé í hlutabréfum til að auka áhættudreifingu í ljósi þess hve íslenski markaðurinn er lítill.
Mynd/Aðsend

Sigurður segir að þrátt fyrir að bandarísk hlutabréf hafi hækkað mest í heiminum undanfarin 120 ár hafi hlutabréfamarkaðir utan Bandaríkjanna hækkað meira á árunum 2002 til 2008. „Frá miðju fjármálahruni 2008 hafa Bandaríkin skarað fram úr á ný. Við leggjum áherslu á að fylgjast daglega með hlutabréfamarkaðnum því það kemur að þeim degi að þessi þróun mun snúast við,“ segir hann.

Svandís segir að þessi hækkunarleggur sé einn sá lengsti á heimsmarkaði sem sögur fari af. „Þessi bók hefur verið fimm ár í vinnslu og við höfum átt von á því að þessi bylgja sem er að rísa fari að hníga en það hefur ekki komið að því.“