Það að vísitölufyrirtækið FTSE Russell hafi til skoðunar að hækka gæðaflokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins hjálpar til við að vekja athygli á markaðnum. „Bein áhrif á flæðið sem hægt er að reikna sig á er lítið sem ekkert,“ segir Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum.

Markaðurinn hefur sagt frá því að FTSE Russell skoði að hækka flokkunina úr vaxtarmarkaði (e. frontier) í annars flokks nýiðnvætt ríki (e. secondary emerging). Á meðal landa sem fyrirtækið flokkar með þeim hætti eru Kína og Indland.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði við fréttavef Markaðarins að þetta væri skref fram á við til að komast í enn stærra mengi, sem beini sjónum fleiri erlendra fjárfesta, sem höfðu ekki veitt honum gaum áður, að markaðnum. Þetta komi til með að styrkja markaðinn og auka virkni.