Hækkun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á síðustu mánuðum, sem hefur hingað til bitnað á lánskjörum sveitarfélaga og fyrirtækja, er nú byrjuð að hafa bein áhrif á heimilin. Hækkun kröfunnar er veruleg miðað við önnur samanburðarlönd.

„Allir vextir á markaði miðast við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Þegar hún hækkar hefur það keðjuverkandi áhrif á alla vexti í íslenskum krónum. Það er óumflýjanlegt og við sjáum áhrifin koma fram á hverjum einasta degi. Sveitarfélög eru nú að fá verri lánskjör á lengri lántökum en þeim buðust fyrir nokkrum mánuðum. Sama gildir um fasteignafélög og öll önnur fyrirtæki og nú er hækkun ávöxtunarkröfunnar byrjuð að hafa bein áhrif á heimilin,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur í skuldabréfum hjá markaðsviðskiptum Arion banka. Hann bætir við að önnur afleiðing sé að fleiri félög horfi til þess að fjármagna sig til skamms tíma í senn.

Íslandsbanki ætlar að hækka vexti á húsnæðislánum í vikunni. Var hækkunin rökstudd með vísan til hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Vaxtahækkun Íslandsbanka nemur allt að 0,35 prósentustigum og nær til verðtryggðra húsnæðislána og lána á föstum, óverðtryggðum vöxtum.

Bankar fjármagna útlán til íbúðakaupa með því að gefa út svokölluð sértryggð skuldabréf, en verðlagning þeirra miðast við ákveðið álag ofan á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Þegar ávöxtunarkrafa ríkisbréfanna hækkar þá hækkar sömuleiðis ávöxtunarkrafa sértryggðu bréfanna og þar með fjármögnunarkostnaður bankanna og vextir á íbúðalánum.

„Þetta er bein afleiðing þess að ávöxtunarkrafa á sértryggðum skuldabréfum bankanna fylgir eftir hækkun á ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfamarkaði og þar af leiðandi enda heimilin á því að borga hærri vexti af húsnæðislánum,“ segir Stefán Broddi.

Ávöxtunarkrafa fimm ára óverðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa, sem hefur hvað mest áhrif á íbúðalán og fyrirtækjalán, hefur á síðustu sex mánuðum hækkað töluvert meira en ávöxtunarkrafan hjá samanburðarríkjum. Gildir þá einu hvort litið sé einn mánuð, þrjá mánuði eða sex mánuði aftur í tímann. Ávöxtunarkrafan hefur hækkað um 0,63 prósentustig á síðustu sex mánuðum.

ávöxtunarkrafa.PNG

Sama gildir um ávöxtunarkröfu 10 ára ríkisskuldabréfa en einungis í Brasilíu, sem er með háa vexti, verðbólgu og lágt lánshæfismat, má finna meiri hækkun ávöxtunarkröfu síðustu þrjá mánuði. Ef horft er sex mánuði aftur í tímann hefur ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisbréfa hækkað mest miðað við önnur samanburðarlönd.

Þá sker Ísland sig úr hópnum hvað varðar mun á ávöxtunarkröfu fimm ára ríkisbréfa annars vegar og stýrivöxtum hins vegar. Munurinn hér er 1,79 prósentustig, en næst kemur Ungverjaland með 1,16 prósentustig.

Hækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á undanförnum vikum má meðal annars rekja til umfangsmikillar sölu erlendra fjárfestingarsjóða. BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu, hefur frá því í ágúst selt íslensk ríkisskuldabréf fyrir vel yfir 30 milljarða króna að sögn þeirra sem þekkja vel til. BlueBay, sem hóf innreið sína á skuldabréfamarkaðinn árið 2015, hefur verið einn stærsti eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa ásamt bandaríska eignastýringarfélaginu Eaton Vance Management.

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum, svokallaða magnbundna íhlutun, fyrir allt að 150 milljarða í mars, en þannig vildi bankinn tryggja að fjármagnsþörf ríkisins myndi ekki þrýsta upp ávöxtunarkröfunni. Frá þeim tíma hefur bankinn hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir.

„Útlit er því fyrir að afkoma ríkissjóðs versni í ár og að hann þurfi að afla sér töluverðs lánsfjár með útgáfu ríkisbréfa. Að öðru óbreyttu dregur það lausafé úr umferð og þrýstir upp ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa, sem truflar eðlilega miðlun peningastefnunnar á sama tíma og aðgerðir Seðlabanka Íslands miða að því að létta á fjármálalegum skilyrðum heimila og fyrirtækja,“ sagði í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands þegar aðgerðin var kynnt.

eignarhald.jpg

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, bendir á að í vor hafi Seðlabankinn tilkynnt að uppkaup á skuldabréfamarkaði gætu numið allt að 20 milljörðum króna á öðrum og þriðja ársfjórðungi, en raunin varð sú að heildarkaup bankans á öðrum fjórðungi námu 892 milljónum króna. Kaupin á þriðja fjórðungi voru engin.

„Ég held að það skilji fáir hvers vegna Seðlabankinn er ekki að beita uppkaupunum í meira mæli. Það sem við höfum kallað eftir er aukinn fyrirsjáanleiki vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir. Allar skýringar væru til bóta því það er greinilega kominn óróleiki í markaðinn,“ segir Anna Hrefna.

„Það sem er að raungerast núna er hækkun vaxta á lengri endanum, líklega vegna þess að fjárfestar hafa áhyggjur af þeirri miklu fjármagnsþörf sem er fram undan og það gerir fjármögnun ríkisins dýrari en hún annars væri.“

Ríkisbréfakaup í mýflugumynd

Peningastefnunefnd taldi á fundi sínum fyrr í þessum mánuði ekki vera ástæðu til „umfangsmikillar [magnbundinnar] íhlutunar, þar sem framboð á ríkisbréfum hefði ekki aukist til muna og verðmyndun og virkni markaða verið eðlileg. Nefndarmenn voru sammála um að þótt langtímaávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefði þokast upp að undanförnu, væri ekki tilefni til kröftugri viðbragða að sinni.“

Stefán Broddi segir að magnbundna íhlutunin sé í algjörri mýflugumynd. „Kannski hélt Seðlabankinn að það dygði að sýna tennurnar en að lokum mun hann þurfa að grípa inn í, eins og seðlabankar hafa verið að gera úti um allan heim, ef hann vill hafa áhrif á langtímavexti.“

Spurður hvort Seðlabankinn vilji bíða þangað til erlendir sjóðir klári sölu sína á íslenskum ríkisskuldabréfum segir Stefán að Seðlabankinn þurfi að svara fyrir það. „En Seðlabankinn hefur reynt að halda uppi gengi krónunnar á meðan erlendir sjóðir fara af markaðinum sem þýðir að þeir hafa fengið betra verð fyrir krónurnar en annars hefði orðið.“

Gæti bitnað á efnahagsbata

Hækkun ávöxtunarkröfunnar getur torveldað hagkerfinu að komast í gegnum kórónakreppuna að sögn Stefáns.

„Ef ríkið ætlar að fjármagna stór verkefni sem hafa langan líftíma, þá ræðst ávöxtunarkrafan sem er lögð á svona verkefni af langtímavöxtum. Ef langtímavextir hækka þá er ljóst að færri framkvæmdir verða metnar arðbærar, ráðist verður í færri framkvæmdir en ella og færri störf verða sköpuð. Og okkur vantar aldeilis að skapa störf á Íslandi í dag,“ segir Stefán Broddi.

Eins og fram kom í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans gerir spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) ráð fyrir því að hlutfallsleg aukning atvinnuleysis milli 2019 og 2020 í þróuðum ríkjum verði næstmest hér á landi. AGS spáir því að atvinnuleysið hér á landi fari úr 3,6 prósentum árið 2019 og í 7,2 prósent á þessu ári og tvöfaldist milli ára.

Stefán Broddi Guðjónsson.

Lífeyrissjóðir líta ekki við ríkisbréfunum

Viðmælendur Markaðarins á fjármálamarkaði segja áhyggjuefni að lífeyrissjóðir sjái ekki hag sinn í því að kaupa ríkisskuldabréf. Færa megi rök fyrir því að lífeyrissjóðir séu ekki sammála vaxtastigi stjórnvalda og taki því ekki þátt í að fjármagna stjórnvöld til lengri tíma.

Stefán Broddi bendir á að útboð á lengri skuldabréfum ríkissjóðs hafi verið „mjög döpur“. Ríkið hafi fjármagnað sig með útgáfu á stuttum skuldabréfum og helstu kaupendur hafi verið bankarnir, sem búa við rúma lausafjárstöðu. Ef ríkið ætlar hins vegar að fjármagna sig til lengri tíma þurfi aðrir að koma að borðinu.

„Það er ekki að sjá að þessir hefðbundnu kaupendur á markaði, lífeyrissjóðirnir, séu að kaupa ríkisbréf þegar ávöxtunarkrafan er á þessum slóðum, hvorki verðtryggð né óverðtryggð. Hver á þá að fjármagna þetta mikla framboð sem er að koma frá ríkinu? Einungis Seðlabankinn kemur til greina, nema erlendir fjárfestar fari að sýna landinu áhuga á ný,“ segir Stefán Broddi.

„Á meðan Seðlabankinn og lífeyrissjóðirnir halda að sér höndum er ekki að sjá annað en langtímavextir haldist áfram mun hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum, þó svo að stýrivextir hafi verið lækkaðir.“