Landsbankinn hækkar fasta vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum um 0,15 til 0,20 prósentustig frá og með deginum í dag. Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum haldast óbreyttir hjá bankanum, eða 3,5%.

Fastir vextir óverðtryggða íbúðalána til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána til 60 mánaða um 0,20 prósentustig.

Auk þess hækka fastir vextir til 36 mánaða vegna bíla- og tækjafjármögnunar um 0,15 prósentustig en aðrir útlánsvextir haldast óbreyttir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bankans.

Samhliða þessu hækka fastir innlánsvextir til 36 mánaða um 0,15 prósentustig og fastir innlánsvextir til 60 mánaða um 0,20 prósentustig. Þá verða breytingar á innlánsvöxtum gjaldeyrisreikninga í sterlingspundum, Kanadadal og norskri krónu.

Að sögn bankans fjármagnar hann íbúðalán meðal annars með útgáfu sértryggðra skuldabréfa með föstum vöxtum sem boðin eru út á skuldabréfamarkaði. Vaxtabreytinguna nú megi fyrst og fremst rekja til þess að ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa hafi hækkað umtalsvert frá síðustu vaxtabreytingu.

Ávöxtunarkrafa hækkað um hátt í eina prósentu

Ávöxtunarkrafa lengri ríkisskuldabréfa hefur hækkað um hátt í eina prósentu á þremur mánuðum og á sama tíma hafa fjármögnunarkjör bankanna á markaði, það er kjör sértryggðra bréfa, versnað.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, sagði í samtali við Markaðinn í síðustu viku að allar líkur væru á því að fastir vextir á íbúðalánum bankanna muni að óbreyttu hækka nokkuð á næstunni vegna þessarar þróunar.