Hagfræðideild Landsbankans hefur uppfært verðmat sitt á Skeljungi úr 7,8 krónum á hlut í 8,0 krónur á hlut og mælir deildin með kaupum á bréfum í olíufélaginu. 

Segir í verðmatinu sem Markaðurinn hefur undir höndum og birt var í gær að skeljungur hafi haldið fókus og uppskorið vel árið 2018. Tækifæru séu til sóknar en smásölustefna félagsins sé óljós. 

„Samkeppnisaðilar Skeljungs undirgengist töluverðar breytingar undanfarið. Skeljungur hefur ekki farið þá leið að sameinast smásöluaðilum heldur veðjar á að einbeita sér að orkumarkaðinum ásamt aukinni áherslu á alþjóðasölu til skipa og raforkumarkaðnum í Færeyjum,“ segir í verðmatinu.

„Skeljungur hefur einnig verið að fikra sig áfram á smásölumarkaði. Ólíkt helstu samkeppnisaðilunum stundar Skeljungur ekki smásölu á stöðvum sínum heldur leigir þann rekstur út. Skeljungur hefur fjárfest í fyrirtækjum á netsölumarkaði en óljóst er hverjar langtíma fyrirætlanir félagsins eru á þeim markaði.“

Þá kemur fram að kjarasamningar séu ekki jafn stór áhættuþáttur og hjá samkeppnisaðilum vegna færri starfsmanna og lægri launakostnaðar. Tækifæri til vaxtar liggi helst í í alþjóðlegri sölu á skipaeldsneyti, en félagið hefur lagt sérstaka áherslu á þann lið að undanförnu. Horft inn í framtíðina geti þátttaka félagsins í breytingu á færeyskum orkumarkaði reynst ábatasöm en ekkert sé í hendir þar og framtíðin óljós.

„Einnig skiptir máli hvar og hvernig Skeljungur staðsetur sig á smásölumarkaði á Íslandi horft fram á veginn. Skeljungur hefur fest kaup á litlum félögum á markaði með sölu varnings á netinu en sú stefna sem félagið ætlar að marka sér á þeim vettvangi er enn óljós, ásamt því að samkeppni á þeim markaði á væntanlega eftir að harðna þegar stórir aðilar á smásölumarkaði fara að setja aukinn kraft í netverslun,“ segir í verðmatinu.

Það sem af er degi hefur Skeljungur hækkað um 3,26 prósent í Kauphöllinni.