Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að hækka gildi sveiflujöfnunarauka úr 2% í 2,5% af innlendum áhættugrunni.
Það kemur fram í tilkynningu frá nefndinni en hún segir þar íslenska fjármálakerfið standa traustum fótum og að rekstur mikilvægra banka hafi gengið vel og að þeir hafi stutt við bæði heimili og fyrirtæki.
„Bankarnir eru vel í stakk búnir til að mæta aukinni eiginfjárkröfu og viðhalda á sama tíma framboði lánsfjár. Sveiflujöfnunaraukinn er mikilvægur þáttur í viðnámsþoli bankakerfisins. Hækkunin nú er til þess fallin að auka enn frekar á viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja í ljósi þeirrar áhættu sem byggst hefur upp og gæti raungerst á næstu misserum. Ákvörðun nefndarinnar tekur gildi að 12 mánuðum liðnum,“ segir í tilkynningunni þar sem svo er farið yfir stöðuna á markaði í dag.
Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að komið verði á fót óháðri innlendri smágreiðslulausn og styður þau skref sem þegar hafa verið tekin að því marki. Æskilegt er að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er og að niðurstaða fáist innan árs.
„Sá vandi sem steðjar að fjármálafyrirtækjum á alþjóðlegum mörkuðum er áminning um nauðsyn þess að innlánsstofnanir búi yfir nægjanlegum styrk til að geta sinnt hlutverki sínu; að miðla lánsfé og greiðslum, greina og stýra áhættu með viðhlítandi hætti, jafnt í meðbyr sem mótbyr. Í ljósi mikillar innlendrar eftirspurnar og þeirrar óvissu sem ríkir um þróun á fjármálamörkuðum er góður viðnámsþróttur innlendra fjármálafyrirtækja mikilvægur,“ segir í tilkynningunni en fyrr í vikunni var tilkynnt um fall bandaríska bankans Silicon Valley Bank.
Í tilkynningu fjármálastöðugleikanefndarinnar segir að á síðustu mánuðum hafi dregið úr spennu á íbúðamarkaði og að framboð hefur aukist og sölutími lengst. Fasteignaverð er farið að lækka en er þó enn hátt á nær alla mælikvarða. Til marks um það er hlutfall fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu af byggingarkostnaði með hæsta móti. Lánþegaskilyrðin hafa dregið markvert úr áhættusömum lánveitingum. Einnig eru lánveitendur vel í stakk búnir til að draga úr greiðslubyrði með breyttu lánsformi. Fjármálastöðugleikanefnd áréttar mikilvægi þess að lánveitendur á íbúðalánamarkaði vinni með lántakendum, nú sem áður, til að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika eins og kostur er.
Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.