Fjár­mála­stöðug­leika­nefnd hefur á­kveðið að hækka gildi sveiflu­jöfnunar­auka úr 2% í 2,5% af inn­lendum á­hættu­grunni.

Það kemur fram í til­kynningu frá nefndinni en hún segir þar ís­lenska fjár­mála­kerfið standa traustum fótum og að rekstur mikil­vægra banka hafi gengið vel og að þeir hafi stutt við bæði heimili og fyrir­tæki.

„Bankarnir eru vel í stakk búnir til að mæta aukinni eigin­fjár­kröfu og við­halda á sama tíma fram­boði láns­fjár. Sveiflu­jöfnunar­aukinn er mikil­vægur þáttur í við­náms­þoli banka­kerfisins. Hækkunin nú er til þess fallin að auka enn frekar á við­náms­þrótt fjár­mála­fyrir­tækja í ljósi þeirrar á­hættu sem byggst hefur upp og gæti raun­gerst á næstu misserum. Á­kvörðun nefndarinnar tekur gildi að 12 mánuðum liðnum,“ segir í til­kynningunni þar sem svo er farið yfir stöðuna á markaði í dag.

Þá á­réttar nefndin mikil­vægi þess að komið verði á fót ó­háðri inn­lendri smá­greiðslu­lausn og styður þau skref sem þegar hafa verið tekin að því marki. Æski­legt er að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er og að niður­staða fáist innan árs.

„Sá vandi sem steðjar að fjár­mála­fyrir­tækjum á al­þjóð­legum mörkuðum er á­minning um nauð­syn þess að inn­láns­stofnanir búi yfir nægjan­legum styrk til að geta sinnt hlut­verki sínu; að miðla láns­fé og greiðslum, greina og stýra á­hættu með við­hlítandi hætti, jafnt í með­byr sem mót­byr. Í ljósi mikillar inn­lendrar eftir­spurnar og þeirrar ó­vissu sem ríkir um þróun á fjár­mála­mörkuðum er góður við­náms­þróttur inn­lendra fjár­mála­fyrir­tækja mikil­vægur,“ segir í til­kynningunni en fyrr í vikunni var til­kynnt um fall banda­ríska bankans Silicon Vall­ey Bank.

Í til­kynningu fjár­mála­stöðug­leika­nefndarinnar segir að á síðustu mánuðum hafi dregið úr spennu á í­búða­markaði og að fram­boð hefur aukist og sölu­tími lengst. Fast­eigna­verð er farið að lækka en er þó enn hátt á nær alla mæli­kvarða. Til marks um það er hlut­fall fast­eigna­verðs á höfuð­borgar­svæðinu af byggingar­kostnaði með hæsta móti. Lán­þega­skil­yrðin hafa dregið mark­vert úr á­hættu­sömum lán­veitingum. Einnig eru lán­veit­endur vel í stakk búnir til að draga úr greiðslu­byrði með breyttu láns­formi. Fjár­mála­stöðug­leika­nefnd á­réttar mikil­vægi þess að lán­veit­endur á í­búða­lána­markaði vinni með lán­tak­endum, nú sem áður, til að fyrir­byggja greiðslu­erfið­leika eins og kostur er.

Fjár­mála­stöðug­leika­nefnd mun á­fram beita þeim stýri­tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varð­veita fjár­mála­stöðug­leika þannig að fjár­mála­kerfið geti staðist á­föll, miðlað láns­fé og greiðslum og dreift á­hættu með við­hlítandi hætti.