Tekið hefur að hægjast á fast­eigna­markaði eftir mikið líf síðasta sumar og haust, en markaðurinn náði há­marki í septem­ber 2020.

Að­eins dró úr fjölda út­gefinna kaup­samninga og veltu í desember saman­borið við mánuðinn á undan.

Fjöldi fast­eigna sem gekk kaupum og sölum á landinu öllu í desember var 1.183 talsins og var upp­hæð við­skiptanna um 65 milljarðar króna. Þetta kemur fram í saman­tekt Þjóð­skrár Ís­lands um veltu á fast­eigna­markaði í desember 2020.

Þegar desember er borinn saman við nóvember fækkar kaup­samningum um 14,3 prósent og velta lækkar um 8,1 prósent. Á höfuð­borgar­svæðinu fækkaði samningum um 14,7 prósent á milli mánaða og velta lækkaði um 5,1 prósent. Kaup­samningum fækkar þó minna á milli desember og nóvember en mánuðinn þar á undan þegar kaup­samningum fækkaði um 24 prósent og velta lækkaði um 22,3 prósent.