Sænska verslunarkeðjan H&M stendur nú frammi fyrir fjárhagslegum erfiðleikum, í ljós kom í ársfjórðungsskýrslu fyrirtækisins sem kom út á þriðjudag, að fyrirtækið situr uppi með fatnað að virði 460 milljörðum í íslenskum krónum, sem ekki hefur tekist að selja. Hagnaður fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi dróst saman um 62 prósent og er sá lægsti í yfir áratug.

„Þetta er búið að erfitt, það sem af er árs” sagði Karl Johan Persson, forstjóri fyrirtækisins en hann er barnabarn stofnanda verslunarkeðjunnar H&M.

Tískuverslanir hafa í auknum mæli bætt netverslunum við þjónustu sína, en sænska verslunarkeðjan virðist eiga erfitt með að aðlagast samkeppni og breyttum kröfum neytenda til markaðarins. DW greinir frá.

 Verslunarkeðjan hefur fengið harða gagnrýni síðustu ár fyrir röð hneykslismála sem varða umhverfisfótspor og notkun þeirra á barnaþrælkunarverksmiðjum í Mjanmar, Bangladess og Kambódíu. Árið 2016 komust sænskir rannsóknarblaðamenn að því að starfsmenn verksmiðjanna voru allt niður í 14 ára gamlir og unnu meira en tólf tíma á dag, sum fyrir aðeins 16 krónur á klukkutímann.

Fyrirtækið er einnig stærsti fjárfestir af vefnaðarvöru frá Bangladess og er með um það bil 200 fataverksmiðjur á samning hjá sér. Eftir að 1.129 verkamenn létu lífið þegar fataverksmiðja í höfuðborginni Dakka hrundi til grunna árið 2013, skrifaði H&M undir samning þess efnis að bæta öryggi starfsmanna í verksmiðjum Bangladess, en gagnrýnendur hafa bent á að ekki hafi tekist að innleiða hann.

Þrátt fyrir herferð fyrirtækisins árið 2016 þar sem neytendur voru hvattir til þess að skila notuðum fötum til baka í verslanir til endurvinnslu, hefur framkvæmdarstjóri á sviði þróunar og sjálfbærni hjá fyrirtækinu, viðurkennt að aðeins 0.1 prósent fatanna hafi verið endurunnin.

Það er þó einn staður sem nýtur góðs af gríðarlegu offramboði á fatnaði keðjunnar því rafhitastöð í sænska bænum Vesterås brennir föt frá verslunarkeðjunni í stað kola, til þess að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.