Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um lækkun stýrivaxta á síðasta fundi nefndarinnar í byrjun mánaðarins. Hann vildi fremur halda vöxtum óbreyttum. Aðrir nefndarmenn studdu 0,25 prósentastiga lækkun vaxta.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var á vef Seðlabankans síðdegis í dag.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lagði til á fundi peningastefnunefndar dagana 3. og 4. febrúar síðastliðinn að stýrivextir Seðlabankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentustig, úr 3 prósentum í 2,75 prósent. Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, greiddu atkvæði með tillögunni, að því er fram kemur í fundargerðinni, en Gylfi vildi aftur á móti halda vöxtunum óbreyttum.

Í fundargerðinni kemur fram að nefndarmenn hafi rætt þá möguleika að halda vöxtum óbreyttum eða lækka þá um 0,25 prósentustig.

Helstu rökin fyrir því að hafa óbreytta vexti hafi verið þau að þrátt fyrir að efnahagshorfur hafi versnað væri kostnaðarstig orðið hátt sem rekja mætti meðal annars til mikilla launahækkana á undanförnum árum sem hefðu veikt samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreina. Aðlögun þjóðarbúsins þyrfti því í auknum mæli að eiga sér stað í gegnum raunhagkerfið með lækkun kostnaðar og auknu atvinnuleysi.

„Lækkun meginvaxta Seðlabankans myndi ein og sér ekki leysa þann kostnaðarvanda sem er fyrir hendi í þjóðarbúinu heldur þyrfti meðal annars að koma til lækkun raungengis. Núverandi vaxtastig ætti við þessar aðstæður að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta að því gefnu að innlent kostnaðarstig lækki á næstu misserum. Þjóðarbúið hefði verið sterkara í fyrra en búist var við og væri slakinn enn tiltölulega lítill.

Þá væru horfur á að launakostnaður á framleidda einingu myndi hækka nokkuð umfram verðbólgumarkmið á spátímanum auk þess sem enn ætti eftir að ljúka við hluta kjarasamninga opinberra starfsmanna. Órói á vinnumarkaði hefði einnig aukist að undanförnu,“ segir í fundargerðinni.

Helstu rökin fyrir því að lækka vexti enn frekar voru hins vegar þau að efnahagshorfur hefðu versnað og útlit væri fyrir að verðbólga yrði minni á næstu árum en áður var gert ráð fyrir auk þess sem spáð væri að hún yrði nokkuð undir markmiði á meginhluta spátímans.

Í ljósi þess að taumhald peningastefnunnar hefði aukist og fjármálaleg skilyrði fyrirtækja versnað væri rétt að draga úr peningalegu aðhaldi. Þar sem verðbólguvæntingar væru við markmið á flesta mælikvarða gerði það peningastefnunni kleift að nýta svigrúmið sem væri til staðar.