Gyða Dan Johansen hefur látið af störfum hjá Emmessís og selt allan sinn hlut til 1912, móðurfélags heildsölunnar Nathan &  Olsen og Ekrunnar. Eignarhlutur Gyðu í ísgerðinni nam 9 prósentum en hún kom inn í hluthafahópinn árið 2016.

„Það hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi að koma að umbreytingaferli þessa rótgróna framleiðslufyrirtækis og koma því í mun sterkari stöðu til framtíðar," er haft eftir Gyðu í fréttatilkynningu

1912 keypti í sumar 56 prósenta hlut í Emmessís, af Ísgörðum, félags í eigu Pálma Jónssonar, en hann hélt eftir 35 prósentum. Heildsölurisinn er í eigu Kristínar Fenger Vermundsdóttur og barna hennar, Ara Fenger forstjóra og Bjargar Fenger.­ Árið 2017 velti samstæðan sjö milljörðum króna og hagnaðist um 217 milljónir króna.

Athygli vakti að Pálmi keypti 89 prósenta hlut í Emmessís í lok apríl af hópi fjárfesta sem leiddur var af Einari Erni Jónssyni. Um tveimur mánuðum síðar seldi hann 56 prósenta hlut til 1912.

Í frétt Fréttablaðsins, sem greindi frá kaupunum í júní, kom fram að þeir sem vel þekkja til á heildsölumarkaði hefðu vakið athygli á því að Nathan & Olsen hefði umboð fyrir Unilever en keppinauturinn Kjörís flytji inn ís fá fyrirtækinu, þar á meðal ísinn Magnum. Leiða mætti líkur að því að stjórnendur 1912 myndu reyna að fá umboð til að selja ísinn hér á landi.