Innlent

Gunnar Sverris­son nýr fram­kvæmda­stjóri Ís­mars

Tekjur Ísmars hafa vaxið um rúmlega tuttugu prósent á milli ára undanfarin fimm ár. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Sverrisson, fyrrverandi forstjóri Odda og Íslenskra aðalverktaka, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ísmars samhliða kaupum framtakssjóðsins Freyju á 49 prósenta hlut í hátæknifyrirtækinu.

Jón Tryggvi Helgason mun láta af starfi framkvæmdastjóra eftir áratugastarf fyrir Ísmar og tekur nú við sem stjórnarformaður fyrirtækisins.

Gunnar, sem er viðskiptafræðingur að mennt, tekur við framkvæmdastjórastarfinu í byrjun apríl, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í síðustu vikur hefur Freyja, framtakssjóður í rekstri Kviku banka, gengið frá kaupum á 49 prósenta hlut í Ísmar. Seljandi er Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og forstjóra Iceland Seafood International, sem verður áfram meirihlutaeigandi í fyrirtækinu. Samkeppniseftirlitið hefur þegar lagt blessun sína yfir kaupin.

Haft er eftir Bjarna í tilkynningunni að það sé ánægjuefni fyrir Ísmar og viðskiptavini þess að fá Freyju að félaginu sem virkan hluthafa. Þá þakkar hann jafnframt Jóni Tryggva fyrir farsælt samstarf og áratugastörf fyrir Ísmar.

„Með frábæru starfsfólki hefur Jón Tryggvi byggt upp öflugt fyrirtæki sem svo sannarlega hefur staðið undir slagorði félagsins: „Við mælum með því besta“. Sömuleiðis er mikið ánægjuefni fyrir félagið að njóta starfskrafta nýs framkvæmdastjóra, Gunnars Sverrissonar. Félagið er vel í stakk búið til að halda áfram farsælli langtímauppbyggingu undir hans stjórn,“ segir Bjarni.

Margit Robertet, framkvæmdastjóri Freyju, bendir á að kaupin séu fyrsta fjárfesting framtakssjóðsins. „Við erum afskaplega ánægð með að fá tækifæri til að styðja við áframhaldandi vöxt Ísmars í samstarfi við Sjávarsýn og nýjan forstjóra,“ segir hún.

Í tilkynningunni er bent á að rekstur Ísmars, sem var stofnað árið 1982 og sérhæfir sig í tækjabúnaði til meðal annars hvers konar landmælinga, vélstýringa og lasertækni, hafi gengið vel og tekjur fyrirtækisins vaxið um rúmlega tuttugu prósent á milli ára síðustu fimm ár. Stefna eigenda sé að halda áfram á þeirri braut sem félagið hafi unnið eftir á undanförnum árum.

Fulltrúi Freyju mun taka sæti í stjórn Ísmars og taka virkan þátt í að styðja við áframhaldandi uppbyggingu félagsins, að því er segir í tilkynningunni.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Bætti við sig í Marel fyrir 550 milljónir

Innlent

Gert að greiða slita­búi Lands­bankans 30 milljónir evra

Innlent

Tanya Zharov kemur ný inn í stjórn Sýnar

Auglýsing

Nýjast

JP Morgan notast við taugavísindi í ráðningum

Fjárfestar setja skilyrði um #MeToo ákvæði

4,4 milljóna gjald­þrot pítsu­staðar

„Berja bumbur með slagorðum úr kommúnískri fortíð“

Segir skilninginn ríkari hjá norskum stjórn­mála­mönnum

Worldpay selt fyrir 43 milljarða dala

Auglýsing