Gunnar Zoëga hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Notendalausna hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo. Jafnhliða hefur Gunnar tilkynnt úrsögn sína sem varamaður úr stjórn Origo.

Gunnar var framkvæmdastjóri hjá Origo um árabil, síðast framkvæmdastjóri Viðskiptaframtíðar Origo, en hann lét af störfum undir lok síðasta árs. Undanfarið ár hefur hann setið sem varamaður í stjórn Origo. Hann hefur nú tilkynnt úrsögn sína sem varamaður í stjórninni í tengslum við ráðninguna.

Notendalausnir Origo eru söluaðili á ýmiss konar notendabúnaði, svo sem á einmenningstölvum (PC) og hljóð- og myndlausnum til fyrirtækja og endursöluaðila. Auk þess bjóða Notendalausnir viðskiptavinum afgreiðslukerfi, prentlausnir og hraðbankakerfi.

Emil Einarsson, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri Notendalausna, verður forstöðumaður Viðskiptatengsla hjá Origo. Viðskiptatengsl fá útvíkkað hlutverk og munu leggja áherslu á sérfræðiráðgjöf í upplýsingatækni gagnvart stærri viðskiptavinum, efla tengsl við þá, samræma sölustarf þvert á Origo og bjóða viðskiptavinum virðisaukandi lausnir sem auka hagkvæmni í rekstri.

Í framkvæmdastjórn Origo sitja, auk forstjóra, Dröfn Guðmundsdóttir, Gunnar Petersen, Gunnar Zoëga, Hákon Sigurhansson, Ingimar Bjarnason og Örn Alfreðsson.