Fyrsti Michelin-stjörnuhafi Íslendinga, Gunnar Karl Gíslason, stýrir aðalveitingastað Reykjavík Edition-hótelsins sem ber nafnið Tides. Áhersla er lögð á sjávarfang sem og grillað kjöt og grænmetisrétti en flestir réttir eru eldaðir yfir opnum eldi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Tides býður upp á það allra besta af náttúrulegu hráefni landsins. Gunnar Karl býður upp á nútímalega íslenska matargerð sem ber keim af hefðbundnum eldunaraðferðum með áherslu á árstíðabundnar íslenskar afurðir og hágæða alþjóðlegt hráefni sem er að mestu eldað yfir opnum eldi. Á veitingastaðnum er allt kapp lagt á að bjóða upp á ferskar og sjálfbærar innlendar vörur úr næsta nágrenni,“ segir í tilkynningu.

Gunnar Karl stofnaði veitingastaðinn Dill sem fékk Michel­in-stjörnu, missti hana og hreppti hana aftur.

Í anddyri Edition er meðal annars kokteilabarinn Tölt.