Stærsta frumkvöðlakeppni Íslands, Gulleggið, hefur fengið frískandi og hraustlega andlitslyftingu og Gulleggið 2022 byrjar í janúar 2022. Keppnin er öllum opin og þeir sem brenna fyrir nýsköpun eru hvattir til að skrá sig.

Ekkert kostar að skrá sig og til mikils er að vinna! Opið er fyrir skráningu til miðnættis 13. janúar. Hægt er að skrá sig með eða án hugmyndar. Nú geta þeir sem ekki hafa tiltekna hugmynd fram að leggja, en búa yfir reynslu eða hæfileikum sem getur nýst öðrum, líka skráð sig.

Gulleggið er góður vettvangur fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref og dæmi um fyrirtæki sem hafa tekið þátt í Gullegginu eru Controlant, Meniga, Pay Analytics, Heima og Solid Clouds. Landsbankinn veitir aðalverðlaunin, sem eru 1 milljón króna, en að auki er fjöldi aukaverðlauna.

Fram til þessa hefur verið gerð krafa um að einhver í teyminu hafi verið í háskólanámi á seinustu fimm árum eða sé í virku námi, en í ár verður fallið frá því og er keppnin því í fyrsta sinn öllum opin.

„Við erum spennt fyrir þessum breytingum og bjartsýn á að þetta muni auka þátttöku og sýnileika keppninnar,“ segir Ása María Þórhallsdóttir, verkefnastjóri Gulleggsins.

Vinnusmiðjur fyrir alla þátttakendur fara svo fram helgina 15.-16. janúar. Fjöldi reyndra frumkvöðla og sérfræðinga mun taka þátt í vinnusmiðjunum og þar munu keppendur læra að móta hugmyndir sínar og búa til svokallað „pitch deck“ eða stutta glærukynningu sem tekur á öllum þáttum hugmyndarinnar.

Í framhaldinu munu þátttakendur geta sent sína kynningu inn í keppnina og fjölskipuð dómnefnd velur 10 bestu kynningarnar. Þeim hópi verður síðan boðið aftur í kraftmikla vinnuhelgi sem fer fram helgina 29.-30. janúar og að henni lokinni eiga keppendur að vera tilbúnir til að koma fram og selja sína hugmynd af öryggi. Lokakeppnin fer fram í Grósku þann 4. febrúar.

„Þar sem Gulleggið hefur sýnt sig að vera mikilvægt fyrsta skref marga frumkvöðla var ákveðið að opna keppnina fyrir fleirum og gefa þannig sem flestum tækifæri á að nýta sér aðstoðina sem Gulleggið veitir,“ segir Huld Magnúsdóttir, stjórnarformaður Icelandic Startups

Sem fyrr verður lögð rík áhersla á að um hugmyndasamkeppni sé að ræða og mega keppendur ekki hafa aflað fjármagns umfram 2 milljónir króna eða vera farnir að hafa tekjur af hugmyndinni.