Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, var kjörin formaður Félags atvinnurekenda á aðalfundi félagsins í gær. Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, lét af formennsku eftir fjögur ár í stóli formanns. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Guðrún hefur setið í stjórn Félags atvinnurekenda undanfarin tvö ár. Hún hefur verið framkvæmdastjóri Atlantsolíu frá árinu 2008. Áður var hún aðstoðarfjármálastjóri fyrirtækisins. Guðrún starfaði þar á undan sem fjármálastjóri Heildverslunar Ásgeirs Sigurðssonar. Guðrún Ragna er með mastersgráðu í fjármálum frá EADA í Barcelona á Spáni, MBA frá Háskóla Íslands og er viðskiptafræðingur frá HÍ. Hún er gift og á þrjú börn.

Tveir nýir stjórnarmenn

Tveir nýir stjórnarmenn voru kjörnir á aðalfundinum. Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Innness, var kjörinn meðstjórnandi til eins árs.

Leifur á að baki langan feril í stjórnunarstörfum í fjölbreytilegum fyrirtækjum. Hann hefur gegnt núverandi starfi hjá Innnesi frá 2010 en var áður framkvæmdastjóri hjá Bílaumboðinu Öskju og þar áður hjá ísframleiðandanum Emmessís. Hann var framkvæmdastjóri sölu- og dreifingarsviðs Mjólkursamsölunnar og þar á undan framkvæmdastjóri Nýju sendibílastöðvarinnar. Hann er með MBA í alþjóðaviðskiptum frá Johnson & Wales University í Rhode Island í Bandaríkjunum. Leifur er giftur, á tvö uppkomin börn og er nýorðinn afi í fyrsta sinn.

Lilja Dögg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri LYFIS/apótekasviðs Icepharma, var kjörin meðstjórnandi til tveggja ára.

Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr lyfjageiranum, bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Hún hefur gegnt núverandi starfi frá 2017. Þar á undan var hún framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins SagaMedica og markaðsstjóri Pfizer á Íslandi. Lilja vann í rúm 10 ár hjá Actavis þar sem hún gegndi ýmsum störfum, svo sem við sölu, fjármálagreiningar, sem markaðsstjóri Actavis á Íslandi og forstöðumaður markaðssviðs Actavis í Miðausturlöndum, Afríku og Asíu, staðsett í höfuðsstöðvum Actavis í Sviss. Lilja er lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er gift og á tvo syni.

Friðrik Ingi endurkjörinn

Auk nýju stjórnarmannanna var Friðrik Ingi Friðriksson, eigandi og forstjóri í Aflvélum, Burstagerðinni og Spodriba, endurkjörinn meðstjórnandi til tveggja ára.

Áfram sitja í stjórn, kjörin til tveggja ára á aðalfundi 2020, þau Anna Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarmaður og eigandi í Hvíta húsinu, og Guðmundur R. Sigtryggsson, framkvæmdastjóri XCO.