Guðný Rósa Þorvarðardóttir, sem sinnt hefur stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar Festi og Bakkans vöruhúss, hefur sagt starfi sínu lausu.

Í framhaldi af þessu hefur Festi gert breytingar á skipuriti félagsins sem felast m.a. í því að viðskiptaþróun þess færist inn í einstaka rekstrarfélög, þ.e. N1, Krónuna, Elko og Bakkann vöruhús. Þá mun Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi taka við framkvæmdastjórn Bakkans vöruhúss samhliða breytingunum en Guðný gegndi því starfi áður, segir í tilkynningu.

Guðný Rósa telur að það séu ekki síður tækifæri í því að hafa viðskiptaþróun inn í félögunum og með þessum breytingum straumlínulagar Festi rekstur sinn og fækkar stoðsviðum sínum.

„Við teljum mikilvægt að efla sjálfstæða viðskiptaþróun hvers félags fyrir sig og styrkja þau hvert á sínu sviði. Með þessu móti nær hvert félag betri tengingu við bæði sitt einstaka viðskiptaumhverfi sem og að sjálfsögðu við sína viðskiptavini. Við náum á sama tíma að straumlínulaga reksturinn og fækka stoðsviðum,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.