Brim hefur ráðið Guðmund Kristjánsson, aðaleiganda útgerðarinnar, sem forstjóra á ný, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hann lét af því starfi í lok apríl í fyrra af persónulegum ástæðum, að því er fram kom í tilkynningu á þeim tíma, en sat áfram í stjórn félagsins.

Guðmundur var ráðinn forstjóri Brims, sem þá hét HB Grandi, sumarið 2018 skömmu eftir að hann keypti 34 prósenta hlut í félaginu af Kristjáni Loftssyni.

„Það er ánægjulegt að vera kominn aftur til starfa. Ég hef nýtt tímann vel og kem fullur krafts og tilhlökkunar til starfa. Við höfum séð að þegar aðstæður í efnahagslífinu verða erfiðar, eins og síðustu misseri, að sjávarútvegur er burðarstólpi í íslensku samfélagi og við hjá Brim munum leggja okkar af mörkum til þess að svo verði áfram,“ segir Guðmundur í tilkynningu.

Hjá Brim starfa um 800 manns við hin ýmsu störf í virðiskeðju sjávarútvegs. Brim framleiðir afurðir úr sjávarfangi og rík áhersla er lögð á nýsköpun og háþróaða tækni við veiðar og vinnslu sjávarafurða.