Guðlaug Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Stekks fjárfestingafélags og stjórnarformaður Límtré Vírnets, Securitas og Júpíters rekstrarfélags hefur ákveðið að sækjast eftir formennsku í Samtökum iðnaðarins. Ný stjórn samtakanna verður kjörin með rafrænum hætti í aðdraganda aðalfundar, sem haldinn verður í lok apríl.

Í fréttartilkynningu um framboðið er Guðlaug sögð búa yfir mikilli rekstrar- og stjórnunarreynslu. Hún hefur stýrt fjárfestingarfélaginu Stekk frá árinu 2010 en áður starfaði hún hjá Deutsche Bank og USB fjárfestingarbanka í New York. Samanlögð reynsla af stjórnarsetu spannar 28 ár, þar af hefur hún gegnt stjórnarformennsku í 16 ár.

„Undir hennar formennsku hafa félög í eigu Stekks aukið umsvif sín og veltu, skilað betri afkomu, greitt niður skuldir og ráðist í nýsköpun og þróun,“ segir í tilkynningunni en bæði Límtré Vírnet og Securitas eru í Samtökum iðnaðarins

Guðlaug er viðskiptafræðingur að mennt, með B.Sc. gráðu frá New York University og MBA frá sama háskóla með sérhæfingu í tölfræðilegri fjármálafræði, alþjóðlegri fjármálafræði og hagfræði.

Haft er eftir Guðlaugu að íslenskur iðnaður gegni lykilhlutverki í endurreisn hagkerfisins eftir einhverja skörpustu niðursveiflu lýðveldissögunnar. Hún segist vilja leggja sitt af mörkum í þeirri vegferð.

„Mikilvægi iðnaðarins hefur sjaldan verið augljósara en nú, þegar hagkerfið hefur nánast lokast. Gjaldeyristekjurnar sem greinin skapar eru gulls ígildi, innlend matvælafyrirtæki tryggja aðgengi neytenda að góðum neysluvörum og það er mikilvægt að byggingariðnaðurinn haldi velli, enda mun þörfin fyrir vel byggt húsnæði ekki minnka til framtíðar,“ segir Guðlaug.

„Á hinn bóginn þarf að styðja við þær greinar sem verst hafa orðið úti, ekki síst lítil fyrirtæki sem mega ekki starfa af sóttvarnarástæðum, og sprotafyrirtæki sem annars munu líða fyrir aðstæðurnar. Íslenskur leikja- og kvikmyndaiðnaður hefur staðið í miklum blóma og við ætlum að hlúa að þeim framtíðargreinum, sem munu skapa verðmæti fyrir okkur öll.“