Birtingafyrirtækið Datera hefur ráðið Guðjón A. Guðmundsson í starf birtingastjóra. Helstu verkefni Guðjóns eru að veita ráðgjöf og stýra birtingum á innlendum miðlum auk þess að hámarka árangur með samþættingu við erlenda miðla. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Guðjón hefur víðtæka reynslu af markaðs- og birtingastörfum og hefur sinnt verkefnum fyrir fjölda fyrirtækja á síðustu árum, til dæmis Ora, Opin Kerfi, Lýsi, Svefn & heilsu, Fjarðarkaup, Freyju og Kynnisferðir.

Síðastliðin sex ár starfaði Guðjón hjá VERT markaðsstofu, fyrst um sinn sem birtingastjóri en síðustu ár gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra. Áður starfaði hann sem birtingaráðgjafi fyrir Bestun Birtingahús og á fyrirtækjasviði Pennans Eymundsson.

Guðjón lauk MS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

„Það er gríðarlegur fengur fyrir ört vaxandi birtingahús að fá reynslumikinn og öflugan aðila eins og Guðjón inn í okkar lið. Við höfum vaxið mikið á síðustu árum og viðskiptavinum fjölgar jafnt og þétt. Það þarf úrvalslið til að veita framúrskarandi þjónustu og þessi ráðning er liður í þeirri vegferð,“ segir Hreiðar Þór Jónsson framkvæmdastjóri Datera.

„Ég hlakka mikið til að takast á við þau fjölmörgu spennandi verkefni sem eru fram undan hjá Datera. Í hröðu og síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi hefur aldrei verið mikilvægara að veita góða og faglega birtingaráðgjöf. Hér á Datera kappkostum við einmitt að veita alhliða þjónustu sem nær jafnt til hefðbundinna og stafrænna miðla, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Þannig hámörkum við árangurinn af því fjármagni sem fyrirtæki verja til birtinga,“ segir Guðjón.