Þrjú ný voru kjörin inn í stjórn Festi það voru þau Magnús Júlíusson, stofnandi Íslenskrar orkumiðlunar og aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra, Sigurlína Ingvarsdóttir, fjárfestir og ráðgjafi og Hjörleifur Pálsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar.

Guðjón Reynisson og Margrét Guðmundsdóttir halda sínu sæti í stjórn Festi. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.

Guðjón sagði í samtali við Markaðinn fyrr í dag að hann vonaðist til að friður geti skapast eftir fundinn.

Ný stjórn Festi situr nú á fundi, kýs sér formann og skiptir með sér verkum.

Ekki á meðal tilnefndra

Tilnefningarnefnd Festi gerði tillögu um níu frambjóðendur í stjórnarkjöri, en fimm sitja í stjórn. Tillagan hljóðaði upp á alla sem sátu í stjórn áður, þau Guðjón Reynisson stjórnarformann, Margréti Guðmundsdóttur varaformann stjórnar og stjórnarmennina Ástvald Jóhannsson, Sigrúnu Hjartardóttur og Þóreyju Guðmundsdóttur og fjóra til viðbótar, þau Björgólf Jóhannsson, Magnús Júlíusson, Sigurlínu Ingvarsdóttur og Þórdísi Jónu Sigurðardóttur.

Hjörleifur Pálsson, sem er nýkjörinn í stjórn, var ekki á meðal þeirra sem tilnefningarnefndin tilnefndi.

Þá var tillaga um breytingu á samþykktum félagsins sem fólu í sér nafnabreytingu á félaginu úr Festi í Sundrungu felld.

Það myndaðist biðröð í morgun sem varð til þess að fundinum seinkaði.
Fréttablaðið/Valli

Rangar upplýsingar

Stjórn Festi boðaði til hluthafafundarins, sem fór fram nú í morgun, í kjölfar þess að í ljós kom að stjórnin hafi vísvitandi sent tilkynningu með röngum upplýsingum um starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra félagsins til Kauphallar.

Í tilkynningu stjórnar til Kauphallarinnar kom fram að Eggert hefði óskað eftir að láta af störfum en í ljós kom að stjórnin hafði átt frumkvæði að starfslokunum. Ekki sér fyrir endann á eftirköstum þess máls gagnvart Kauphöllinni, en það er litið mjög alvarlegum augum þegar skráð fyrirtæki senda rangar upplýsingar til markaðarins.