Félög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, aðaleigenda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, minnkuðu verulega eignarhlut sinn í Kviku í byrjun síðustu viku þegar hún seldi í einum viðskiptum bréf í bankanum fyrir jafnvirði rúmlega tveggja milljarða og keypti á sama tíma í Símanum fyrir um milljarð.

Viðskiptin fóru fram fyrir opnun hlutabréfamarkaða mánudaginn 12. apríl síðastliðinn en hluturinn sem var seldur í Kviku, samtals 100 milljónir hluta að nafnverði sem jafngildir um tveggja prósenta eignarhlut í bankanum, hafði verið í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Salan í Kviku kemur skömmu eftir að samruninn við TM gekk formlega í gegn undir lok síðasta mánaðar, þar sem hluthafar TM fengu greitt með bréfum í Kviku, en Guðbjörg hafði verið einn stærsti hluthafi TM um nokkurt skeið.

Þrátt fyrir söluna er hins vegar ljóst að Guðbjörg fer enn með umtalsverðan hlut í sameinuðu félagi Kviku og TM, bæði í gegnum félögin ÍV fjárfestingafélag og Kristinn ehf. – samanlagt fara þau félög með meira en eins prósents hlut í Kviku – og eins framvirka samninga.

Á meðal þeirra fjárfesta sem keyptu stóran hluta bréfanna í Kviku af Guðbjörgu í viðskiptunum í liðinni viku voru sjóðir í stýringu Akta.

Fram kom í kynningum stjórnenda TM og Kviku, þegar samruninn var samþykktur af hluthöfum undir lok marsmánaðar, að áhrif vegna bæði tekju- og kostnaðarsamlegðar séu talin geta numið allt að 3 milljörðum króna. Hlutabréfaverð Kviku hefur hækkað mikið á síðustu vikum og mánuðum – frá áramótum nemur hækkunin 26 prósentum – en markaðsvirði félagsins er í dag um 102 milljarðar.

Með kaupum Guðbjargar á sama tíma í Símanum fyrir um milljarð króna, sem jafngildir um 1,3 prósenta hlut, eru félög í hennar eigu komin í hóp tuttugu stærstu hluthafa fjarskiptarisans.