Lág­marks­laun lægsta taxta flug­liða flug­fé­lagsins PLAY eru um 350 þúsund krónur, án vinnu­fram­lags og auka­greiðslna, ekki 260.000 krónur eins og kom fram í yfir­lýsingu frá Al­þýðu­sam­bandi Ís­lands. Frá þessu er greint í Morgun­blaðinu í dag en þar er vísað til yfir­lýsingar frá Play um málið.

Þar kemur enn fremur fram að heildar­tekjur ný­ráðinna séu um 500 þúsund krónur í meðal­mánuði og að fyrir reyndan starfs­mann gætu föst laun verið allt að 450 þúsund krónur án vinnu­fram­lags.

„Fé­lagið lauk ný­verið hluta­fjár­út­boði þar sem breiður hópur fag­fjár­festa fjár­festi fyrir um 6 milljarða króna í fé­laginu. Þessi fjár­festing var gerð í kjöl­farið á fag­legri á­reiðan­leika­könnun þar sem öll aðal­at­riði rekstursins voru könnuð gaum­gæfi­lega eins og vera ber í svona stórum verk­efnum. Þar með talið voru kjara­samningar enda var það al­gjör­lega skýrt af hálfu allra þessara aðila að þau mál þyrftu að vera full­kom­lega í takt við lög og reglur. Þessi at­riði voru því sér­stak­lega rann­sökuð af sér­fræðingum í kjara­málum,“ segir í yfir­lýsingunni sem birt var í Morgun­blaðinu.

Þá kemur fram í fréttinni að kjara­samningurinn sem Ís­lenska flug­stétta­fé­lagið gerði fyrst við PLAY hafi breyst vegna lífs­kjara­samninganna og allra lægstu grunn­launa­flokkunum breytt „með þeim hætti að greiðslur sem áður voru breyti­legar voru gerðar fastar og tryggðar.“

Þá er greint frá því að flug­liðar fái greidda breyti­lega þóknun af sölu veitinga og varnings um borð flug­vélanna og er það ofan á laun. Þá er þeim einnig tryggð aksturs­greiðsla sem er 51 þúsund krónur.

„Þannig mynda þessar greiðslur föst laun sem breytast ekkert þó að starfs­maður fari í fæðingar­or­lof, veikinda­or­lof eða annað slíkt,“ segir í yfir­lýsingunni.

Frétt mbl.is er hér.