Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag að Byko hafi framið alvarleg brot á samkeppnislögum og lagði 400 milljónir króna sekt á fyrirtækið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu en dóm Hæstaréttar má finna hér.

Aðdragandi málsins á rætur að rekja til maí 2015 þegar Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og EES-samningnum með umfangsmiklu ólögmætu samráði við gömlu Húsasmiðjuna. Var um að ræða verðsamráð á mikilvægum byggingarvörum.

Málið hófst þegar Múrbúðin snéri sér til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir tilraunum Byko og gömlu Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ólögmæta samráði. Taldi Samkeppniseftirlitið að um alvarleg brot væri að ræða og lagði 650 milljón króna. sekt á Norvik, móðurfélag Byko.

Hæstiréttur hækkaði sektina

Norvik og Byko kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í október 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Byko hefði tekið þátt í ólögmætu verðsamráði og brotið gegn samkeppnislögum. Hins vegar féllst nefndin ekki á að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin.

Einnig taldi nefndin að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar. Taldi nefndin því hæfilegt að lækka sekt Byko úr 650 milljónum króna í 65 milljónir.

Samkeppniseftirlitið höfðaði því mál fyrir dómstólum þar sem eftirlitið byggði á því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði túlkað EES-samninginn með röngum hætti. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hækkaði sekt félagsins í 400 milljónir króna en Landsréttur lækkaði sektina á ný  325 milljónir.

Hæstiréttur heimilaði Samkeppniseftirlitinu að áfrýja dómi Landsréttar. Í dómi Hæstaréttar í dag er fallist á það með Samkeppniseftirlitinu að samráðsbrot Byko hafi verið alvarlegra en Landsréttur lagði til grundvallar og sektin hækkuð sem fyrr segir í 400 milljónir.