Veitingastaðurinn Grillhúsið á Tryggvagötu, eða Grillhús Guðmundar, eins og það hét hér áður fyrr hefur skellt í lás.

Þórður Bachmann, eigandi Grillhússins segir í samtali við Fréttablaðið að veitingarekstur í miðbæ Reykjavíkur hafi ekki verið arðbær lengur. „Við tókum ákvörðun um að loka staðnum alfarið. Það var ekki búið að standa til lengi en áhrif kórónuveirufaraldursins á reksturinn var það mikill að við sáum okkur ekki fært að halda rekstrinum áfram í miðbænum né bíða þetta af okkur og halda áfram þegar þetta gengi yfir. Stór hluti veltunnar voru erlendir ferðamenn."

Þórður Bachmann eigandi Grillhússins.
Fréttablaðið/Arnþór Birkisson

Erfiðleikarnir bundnir við miðbæinn

Grillhúsið ehf. á og rekur tvo veitingastaði undir sama nafni, á Sprengisandi og í Borgarnesi. Að sögn Þórðar gengur reksturinn á hinum stöðunum mjög vel. „Miðbærinn er ekki það aðdráttarafl sem hann var fyrir nokkrum árum. Íslendingar eru farnir að sækja í miðbæinn í minna mæli, það var allavega okkar reynsla síðustu árin."

Grillhúsið hefur verið í rekstri í tæp þrjátíu ár en Þórður tók við rekstrinum árið 2004. „Staðurinn hefur verið mjög vinsæll í gegnum árin en það er búið að þrengja ansi mikið að staðnum síðan við tókum við, t.d. varðandi bílastæði hér í nágrenninu sem hefur mikið að segja."

Grillhús Guðmundar

Grillhús Guðmundar opnaði í september árið 1991. Guðmundur Þórsson, matreiðslumaður, og Tómas Tómasson, sem er stofnandi og eigandi Hamborgarabúllu Tómasar, opnuðu staðinn saman. Staðurinn var svokallaður diner-veitingastaður og stemmingin var amerísk, en þar mátti finna bása og djúkbox til að spila gamla og góða slagara. Staðurinn var gríðarlega vinsæll á meðal Íslendinga í fjölda ára en boðið var upp á hamborgara, samlokur, steikur og fleira.