Grikkland tilheyrir nú hópi þjóðríkja sem fá greitt fyrir að slá lán. Grísk stjórnvöld seldu í dag þriggja mánaða skuldabréf á neikvæðum vöxtum. Í frétt Financial Times segir að þetta endurspegli að fjárfestar hafi vaxandi trú á gríska hagkerfinu. Landinu hefur nokkrum sinnum verið komið til bjargar vegna skuldavanda.

Fram kemur í frétt Financial Times að stjórnvöld hafi gefið út 457,5 milljón evra skuldabréf og vaxtakjörin eru neikvæð um 0,02 prósent. Til samanburðar gaf Grikkland út skuldabréf í ágúst sem bar 0,1 prósent vexti. Alla jafna eru stutt skuldabréf sem þessi keypt af bönkum sem hluti af lausafjárstýringu.

Vaxtakjörin endurspegla það að Evrópski seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,1 prósentustig í mínus 0,5 prósent í september.

Annað sem bendir til þess að fjárfestar hafi aukna trú á gríska hagkerfinu er að á þriðjudaginn seldu stjórnvöld 1,5 milljarða evra skuldabréf til tíu ára á 1,5 prósent vöxtum. Landinu hefur ekki áður boðist svo góð kjör. Talið er að hagkerfið muni vaxa um 2,8 prósent á næsta ári.