Vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands geta leitt til þess að fjármagn á innlánsreikningum, sem hefur aukist um tugi milljarða króna á síðustu mánuðum og bera neikvæða vexti miðað við vænta verðbólgu, og aðrar fjáreignir leiti í áhættumeiri eignaflokka. Lágvaxtaumhverfið mun þannig krefjast endurskipulagningar á eignasöfnum landsmanna.

„Stærsti hlutinn af fjáreignum heimilanna fyrir utan lífeyrinn er í innlánum og ég held að margir séu að átta sig á því að raunávöxtun þeirra, miðað við vaxtastig og vænta verðbólgu, sé orðin neikvæð og verði það til lengri tíma,“ segir Birgir Haraldsson, sérfræðingur hjá Akta sjóðum. Vextir af öruggari eignum munu þannig ekki duga til að vega upp á móti verðbólgu.

innlan alls.jpg

Innlán í íslenska fjármálakerfinu námu alls 2.151 milljarði króna í lok apríl á þessu ári og höfðu aukist um 150 milljarða frá áramótum. Þar af námu innlán heimila 1.000 milljörðum króna og jukust þau um 50 milljarða frá áramótum. Á sama tímabili jukust innlán lífeyrissjóða um 40 milljarða króna, úr 142 milljörðum upp í 182 milljarða.

Í kjölfar 0,75 prósentustiga vaxtalækkunar peningastefnunefndar Seðlabankans 20. maí hafa stýrivextir lækkað um alls tvö prósentustig frá því í febrúar. Þeir standa nú í einu prósenti og hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001. Mikil lækkun vaxta hefur leitt til þess að ýmsar áhættulitlar fjáreignir bera neikvæða raunvexti miðað við væntingar um verðbólgu.

„Eignasöfn verða líklegast mun blandaðri og alþjóðlegri en þau hafa verið.“

Birgir segir að búast megi við því að vextir verði lágir til frambúðar og fólk sem er með sparnað í öruggum vaxtatengdum eignum líkt og innlánum og ríkisskuldabréfum muni „óhjákvæmilega þurfa að endurskipuleggja eignasafnið sitt og taka skref lengra út á áhætturófið“.

„Það getur þýtt auknar fjárfestingar til að mynda í skuldabréfum fyrirtækja og hlutabréfum og frekari þátttöku á erlendum fjármálamörkuðum. Eignasöfn verða líklegast mun blandaðri og alþjóðlegri en þau hafa verið, með meira af innlendum hlutabréfum, áhættumeiri skuldabréfum og erlendum verðbréfum,“ segir Birgir.

Þá segir hann að tilfærsla fjármagns yfir í áhættumeiri eignaflokka geti tekið sinn tíma. „Við erum enn á byrjunarreit með það að meðtaka þessar breytingar en ég held að það sé skýrt hvert við erum að stefna. Áhættutaka þarf að aukast með vel ígrunduðum og varfærnum skrefum í samræmi við áhættuþol.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Markaðinn í síðustu viku að hann vonaðist eftir því að lægri vextir myndu ýta fjármagni yfir í áhættusamari fjárfestingar. Það gæti tekið tvö ár.

„Þegar vaxtastigið er orðið svona lágt hætta skuldabréf að gefa af sér beint tekjuflæði. Oft er sagt að hlutabréf breytist í skuldabréf við slíkar aðstæður. Rótgróin íslensk rekstrarfélög, sem geta greitt út ágætis arð, verða þá talinn öruggur fjárfestingarkostur og skila reglulegu tekjuflæði til fjárfesta eins og skuldabréf hafa hingað til gert,“ sagði Ásgeir.

Seðlabankastjóri sagðist telja að fjármálamarkaðurinn hér á landi væri ekki enn búinn að meðtaka þær grundvallarbreytingar sem fylgja því að vextirnir séu orðnir svona lágir. Íslenskir fjármagnseigendur hefðu verið nokkuð góðu vanir á undanförnum árum og það hefði reynst þeim fremur auðvelt að fá áhættulausa ávöxtun. Til þess að fá ávöxtun við þessar aðstæður þyrftu fjárfestar hins vegar að taka áhættu.

„Með lækkandi vöxtum verða hlutabréfakaup vonandi eftirsóknarverðari fjárfestingarkostur en eftir fjármálaáfallið hefur hlutabréfamarkaðurinn verið alltof lítill og almenningur hefur verið hræddur að kaupa hlutabréf.

Líklegt að fjármagn leki inn á fasteignamarkaðinn

Líklegt er að svigrúmið sem vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands skapa leki inn á fasteignamarkaðinn. Þetta sögðu greinendur í umfjöllun Markaðarins frá því um miðjan júní.

„Hann er sá eignamarkaður sem flestir Íslendingar telja sig hafa skilning á og margir sjá nú sparnaðinn sinn skila lítilli ávöxtun. Í slíku umhverfi gæti skapast þrýstingur á fasteignamarkaðinn,“ sagði Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, sagði að mikil eftirspurn hefði verið eftir endurfjármögnun í kjölfar síðustu vaxtalækkunar Seðlabankans.

„Vaxtalækkanir á húsnæðislánum geta stutt við húsnæðisverð þar sem greiðslubyrðin hefur lækkað. Niðurstöður könnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar styðja þessa skoðun þar sem mun fleiri telja hagstætt að kaupa íbúðarhúsnæði um þessar mundir en fyrir ári. Lágvaxtaumhverfi dagsins í dag gæti einnig haft áhrif á fjárfesta, það er að segja að lágir vextir í fjárfestingarumhverfinu gætu beint fjármagni inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Erna Björg.