Styrmir Þór Bragason segir uppbyggingu Arctic Adventures hafa verið mikið ævintýri. „Þegar ég byrjaði var ferðaþjónustan í raun að slíta barnsskónum og mikið uppbyggingar- og frumkvöðlastarf fór í gang. Upphaflega ætlaði ég að vera í þessu í þrjú til fimm ár en þau eru nú orðin átta.“

Styrmir segir ferðaþjónusturekstur hafa verið mikla rússíbanareið síðustu árin. „Við höfum stækkað mikið bæði í gegnum sameiningar, kaup á félögum og svo líka innan frá, og í Covid hefur mikið reynt á og umhverfið verið mjög krefjandi. Við stefnum á skráningu með Arctic Adventures á næstu 18 mánuðum og mér fannst upplagt að breyta til núna. Við erum á ákveðnum tímamótum. Gréta María Grétarsdóttir þekkir félagið sem stjórnarmaður og hefur mikla og dýrmæta reynslu sem mun nýtast við undirbúning skráningar. Mér fannst gott að fá inn sterka manneskju með góða sýn á umhverfismál. Ég er áfram stór hluthafi í fyrirtækinu og mun sinna afmörkuðum verkefnum tengdum félaginu. Gréta María tekur til starfa um áramót og ég verð henni innan handar fyrstu mánuðina.“

Gréta María Grétarsdóttir verðandi forstjóri Arctic Adventures.

Styrmir segir undanfarin ár hafa verið mjög annasöm, eftir gríðarlega uppbyggingu og vöxt hafi Covid haft þau áhrif að allt nánast stöðvaðist og þurft hafi að róa lífróður til að halda fyrirtækinu gangandi. „Ég ákvað með sjálfum mér þegar þetta kom upp að ég ætlaði að koma fyrirtækinu í gegnum þennan skafl og svo ætlaði ég að hætta.“