Eignarhaldsfélagið LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans, greiddi ríflega 3,4 milljónir evra, jafnvirði um 430 milljóna króna, í laun og launatengd gjöld á öðrum fjórðungi ársins og nær þrefölduðust greiðslurnar frá fyrsta fjórðungi þegar þær námu jafnvirði 155 milljóna króna. 

Hækkunin á milli fjórðunga skýrist af hvata- og starfslokagreiðslum sem féllu til á öðrum ársfjórðungi, að því er fram kemur í kynningu vegna fjórðungsuppgjörs félagsins.

Í uppgjöri LBI kemur fram að sex manns hafi starfað hjá félaginu að meðaltali á öðrum ársfjórðungi borið saman við sjö starfsmenn á fyrsta fjórðungi.

Heildarrekstrarkostnaður LBI nam ríflega 4,5 milljónum evra, sem jafngildir um 565 milljónum króna miðað við núverandi gengi, á öðrum fjórðungi en til samanburðar nam hann jafnvirði 350 milljóna króna á fyrsta fjórðungi. Að launum og launatengdum gjöldum undanskildum dróst kostnaðurinn saman um 30 prósent á milli fjórðunga.

Heildareignir LBI námu 138 milljónum evra, jafnvirði 17,3 milljarða króna, í lok júnímánaðar borið saman við 183 milljónir evra í lok mars.