Nýju skipulagsbreytingarnar í Arion banka fela í sér að greiningardeild bankans verður lögð niður. Samkvæmt nýju skipuriti verður starfandi yfirhagfræðingur á skrifstofu bankastjóra.

Stjórn Arion banka samþykkti í morgun skipulagsbreytingar sem verða til þess að starfsmönnum bankans fækkar um eitt hundrað. Einnig verða töluverðar breytingar á skipuriti bankans eins og greint hefur verið frá.

Starfsmönnum greiningardeildarinnar verður ekki sagt upp heldur færast þeir yfir á önnur svið bankans. Stefán Broddi Guðjónsson hefur verið forstöðumaður greiningardeildarinnar frá árinu 2015 en auk hans starfa fimm aðrir sérfræðingar í deildinni. Greiningardeild Arion hefur reglulega gefið út Markaðspunkta þar sem fjallað er um íslenskt efnahagslíf.

Íslandsbanki réðst í sambærilegar breytingar vorið 2017 þegar greiningardeild bankans var lögð niður og Jón Bjarki Bentsson var skipaður aðalhagfræðingur.