Það eru ekki aðeins greinendur hérlendis sem hafa verið að vanspá verðbólgunni heldur hefur það verið staðan víðsvegar í heiminum.

Þetta sagði Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka en hún var gestur Markaðarins sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Það er verið að vanspá um allan heim og er ekki bara hérlendis. Það er rosalega erfitt að spá fyrir um ástand sem hefur ekki gerst áður,“ segir Bergþóra og bætir við að helsta ástæðan fyrir verðbólgu um allan heim hafi verið afleiðingar faraldursins og stríðið í Úkraínu.

„Það hefur því reynst greiningaraðilum mjög erfitt að spá fyrir um næstu skref eins og hvenær afléttingarnar verða, hvað sé að gerast varðandi framleiðslukeðjur erlendis og hvernig fasteignamarkaðurinn muni þróast.“

Bergþóra bætir við að margir þættir verði að ganga upp og þeir hafi verið öðruvísi heldur en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir.

„Við segjum það manna hæst að við höfum verið að vanspá verðbólgunni og greiningaraðilar hérlendis og erlendis hafa gert það líka.“

Í þættinum var rætt um ákvörðun Peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig, verðbólguna, fasteignamarkaðinn og horfur í efnahagslífinu.