Flugfargjöld til útlanda hækkuðu einungis um 6,3 prósent milli júní og júlí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Það er talsvert minni hækkun á milli þessara tveggja mánaða en hefur sést á síðustu árum.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans en tölurnar komu greindendum bankans mjög á óvart.

„Enda hefur þessi liður hækkað um rúmlega 20 prósent milli mánaða undanfarin tvö ár. Það er 12 prósent ódýrara að fljúga til útlanda í júlí í ár en í júlí fyrir ári síðan. Við áttum von á hækkun flugfargjalda milli ára, vegna minni samkeppni í kjölfar fall WOW og betri sætanýtingu hjá Icelandair,“ segir í Hagsjá.

Greiningardeild Arion banka tekur í sama streng: „Í fyrsta lagi hækkuðu flugfargjöld mun minna en við gerðum ráð fyrir (6,3% í stað 23,9%), sem verður að teljast áhugavert í ljósi þróunar flugframboðs og sætanýtingar t.d. hjá Icelandair,“ segir í Markaðspunktum sem deildin gefur út. Niðurstaðan komi greinendum deildarinnar í opna skjöldu enda á skjön við væntingar þeirra og hornsteina hagfræðinnar um framboð og eftirspurn.

„Frá falli Wow air í lok mars hefur verðmæling Hagstofunnar gefið til kynna að flugfargjöld fari hækkandi. Í apríl mældist í fyrsta skipti hækkun á verði flugfargjalda á milli ára, en fram að því hafði árstakturinn lækkað í hverjum einasta mánuði frá september 2015. Í júlí mældist aftur lækkun á verði flugfargjalda til útlanda milli ára, þvert á væntingar okkar. Erfitt er að segja til um hvað veldur og hvort um sé að ræða vísi að þróun næstu mánaða. Miðað við stöðuna á flugmarkaði um þessar mundir, fréttir af fækkun flugferða og varnarbaráttu flugfélaga myndi maður ætla að flugfargjöld muni halda áfram að hækka og að júlímánuður gefi ekki forsmekk af því sem koma skal,“ segir í Markaðspunktum.

Þá bendir Greining Íslandsbanka í sínu fréttabréfi á að ef litið er til síðustu fimm ára hafi flugfargjöld hækkað að meðaltali um 21 prósent í júlímánuði. „Flugfargjöld eiga það til að hækka töluvert yfir sumartímann og telst þessi hækkun býsna hófleg.“

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,2 prósent í júlí samkvæmt tölum Hagstofunnar. Mælist verðbólga nú 3,1 prósent samanborið við 3,3 prósent í júní.