Greiðsluvandi fyrirtækja í ferðaþjónustu gæti breyst í skuldavanda hjá stórum hlutagreinarinnar. Þetta sagði Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands, á opnum fundi
í morgun.

„Endurskipulagning skulda á að stórum hluta eftir að fara fram,“ benti hann á

Fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleiki að gjaldþrot í greininni hafi enn sem komið verið fátíð. Nú þegar hillir undir endalok faraldursins sé brýnt að huga að endurskipulagning skulda fyrirtækja í greininni.

Ellefu prósenta útlánavöxtur

Haukur sagði að útlánavöxtur kerfilega mikilvægra banka til ferðaþjónustu hafi verið ellefu prósent á síðasta ári.

Í ritinu segir að stór hluti útlánaaukningarinnar skýrist af frestuðum afborgunum og vaxtagreiðslum á árinu, auk nýrra stuðnings- og brúarlána Til viðbótar hafði gengislækkun krónunnar á árinu þau áhrif að lán í erlendum gjaldeyri hækkuðu í krónum talið en þau nema tæplega þriðjungi útlána til ferðaþjónustu.

Í lok síðasta árs voru útlán til ferðaþjónustu um tíu prósent af heildarútlánum bankanna og rúmlega 20 prósent af fyrirtækjaútlánum þeirra.

Í Fjármálastöðugleiki er vakin athygli á að nær algert tekjufall hafi orðið í ferðaþjónustu. Miklar takmarkanir séu enn í gildi á ferðum milli landa vegna farsóttarinnar og hafa nær engir ferðamenn komið til landsins síðustu sjö mánuði.

Fyrirhugað sé að 1. maí geti ferðamenn frá ákveðnum Evrópulöndum, eftir ástandi faraldursins á brottfararstað, komið hingað til lands án sóttkvíar. Áhrif tilslakana muni ráðast af því hvernig gangi að hefta útbreiðslu veirunnar bæði hér á landi og erlendis og hversu útbreidd bólusetning verði orðin.

Í ritinu segir að utan Schengen-svæðisins séu komur einungis heimilar fyrir ferðamenn sem geti sýnt fram á gilt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu.

Atvinnuleysi sýrist fækkun starfa í ferðaþjónustu

Fram kemur í Fjármálstöðugleika að aukið atvinnuleysi undanfarna tólf mánuði skýrist að stórum hluta af fækkun starfa í ferðaþjónustu en fjöldi starfsmanna í einkennandi greinum ferðaþjónustu hafði í desemberdregist saman um tæplega 48 prósent frá sama mánuði 2019.

„Útlit er fyrir að komandi sumri muni svipa til þess síðasta að því leyti að innlend ferðamennska verði í fararbroddi, forsenda þess er þó að létt verði á sóttvarnaraðgerðum innanlands. Hluti greinarinnar, t.d. gististaðir á höfuðborgarsvæðinu, ýmis afþreyingarfyrirtæki, ferðaskrifstofur og fleiri aðilar, munu þó aðeins að litlu leyti njóta góðs af auknum fjölda innlendra ferðamanna. Afkoma ferðaþjónustunnar ræðst af því hvenær tekst að koma böndum á farsóttina, landamæri verða opnuð á nýjan leik og flugsamgöngur komast í eðlilegt horf,“ segir í ritinu.