Verk­taka­fyrir­tæki greiddi fyrrverandi lykil­starfs­manni GAMMA tug­milljónir króna um svipað leyti og virði fast­eigna­sjóðsins Novus, sem var í rekstri GAMMA, lækkaði veru­lega. Nú­verandi eig­endur hafa til­kynnt málið til héraðs­sak­sóknara. Þetta er meðal þess sem fram kom í nýjasta þætti Kveiks, sem var á dag­skrá ríkis­út­varpsins í kvöld.

Nýir stjórn­endur GAMMA sendu í kjöl­far út­sýningar þáttarins frá sér yfir­lýsingu þar sem segir að at­vik málsins hafi verið til­kynnt til em­bættis héraðs­sak­sóknara. Þar að auki verði bóta­réttur þeirra sem að málinu koma kannaður.

Kvika banki keypti allt hluta­fé GAMMA í lok ársins 2018 á 2,4 milljarða króna. GAMMA var þannig rekstrar­aðili sjóðsins GAMMA: Novus, sem var eig­andi Upp­hafs. Nú er sjóðurinn metinn á 40 milljónir. Upp­haf var sagt 5,2 milljarða virði í upp­hafi árs 2018.

Eftir kaupin, eða á seinni helmingi síðasta árs, hafi komið í ljós að staða Upp­hafs hafi verið veru­lega of­metin og að fé­lagið glímdi við al­var­legan lausa­fjár­skort. Staðan hafi kallað á fjár­hags­hlega endur­skipu­lagningu og hafi samningum verið slitið við um­rædda verk­taka.

Þá segir í yfir­lýsingu nýrra stjórn­enda GAMMA að leitað hafi verið til ó­háðs aðila til að fara yfir rekstur fasteignasjóðsins Novus og að bráða­birgðar­niður­stöður þeirrar rann­sóknar liggi fyrir. Þær verði kynntar hags­muna­aðilum á næstu vikum.

Í þættinum kom fram að verk­taka­fyrir­tækið VHE hafi greitt Pétri Hannes­syni, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóra Upp­hafs, 58 milljónir króna á árunum 2015 til 2019. Á þeim tíma hafi verið um­fangs­mikið við­skipta­sam­band milli fé­laganna.

VHE hafi verið um­svifa­mesti fram­kvæmda­aðilinn að byggingu hundruð í­búða fyrir Upp­hafi og sjóðurinn Novus hafi greitt VHE ríf­lega sjö milljarða króna frá 2015 og verkin hafi ekki verið borðin út.

Þá kom fram að samningar á milli Upp­hafs og VHE hafi verið svo­kallaðir cost-plús samningar. Þeir fela í sér að Upp­haf greiddi allan kostnað við fram­kvæmdirnar auk á­lags til VHE, sem hafi þannig ekki tekið neina á­hættu við fram­kvæmdirnar og hafi verið tryggður hagnaður.

Máni Atla­son, nú­verandi fram­kvæmda­stjóri GAMMA, full­yrti í þættinum að við gerð slíkra samninga sé iðu­lega sett á­kveðið við­miðunar­verð og samið um að klári verk­taki undir því verði sé á­góðanum deilt milli aðila. Fari verk­taki yfir verðið, deili aðilar kostnaði. Þannig sé komið í veg fyrir að verk­taki hagnist á því að fara fram úr kostnaðar­á­ætlun.

Hvorki Pétur né Unnar Steinn Hjalta­son, stjórnar­for­maður og aðal­eig­andi VHE vildu kannast við greiðslur verk­taka­fyrir­tækisins til Péturs þegar þátta­stjórn­endur leituðu svara. Skömmu eftir að rætt var við þá barst þættinum yfir­lýsing frá lög­manni VHE þar sem gengist var við greiðslunum og þær sagðar fyrir ráð­gjöf. Ráð­gjöf sem snúi að fast­eigna­verk­efnum sem ekki hafi tengst Upp­hafi.