Ef tekið er tillit til lækkunar vaxta og hækkunar ráðstöfunartekna hefur greiðslubyrði lækkað um 27 prósent frá árinu 2019. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu frá Viðskiptaráði.

Þar segir jafnframt að aukinn sparnaður hafi breytt neyslumynstri landsmanna í kjölfar heimsfaraldursins sem hafi haft áhrif til hækkunar hér líkt og erlendis.

„Svo virðist sem dregið hafi úr íbúðaskorti frá 2019 en horfurnar nú eru tvísýnni og skortur gæti verið að aukast á ný. Mikilvægast er að skorti, sé hann til staðar, verði mætt jafnt og þétt. Hækkandi ásett verð og lítið söluframboð benda til þess að íbúðaverð kunni að halda áfram að hækka hratt næstu mánuði. Sviðsmyndagreining varpar ljósi á greiðslubyrði í nýlegum spám. Þróun vaxta og ráðstöfunartekna mun, líkt og áður, hafa mikil áhrif á verðþróun næstu ár,“ segir í greiningunni.

Þá kemur einnig fram að hækkanir að undanförnu megi rekja til tveggja þátta: framboðsskorts annars vegar og hins vegar vegna vaxtalækkana og aukinna útlána.

Meira verður byggt en óvíst hvort það dugi

Fram kemur að íbúðum hafi fjölgað meira en íbúum frá árinu 2019 og því hafi breytingin á framboði íbúða lagst gegn öðrum þáttum sem hafi stuðlað að veðhækkunum.

„Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins hefur íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 32% síðastliðin tvö ár. Fækkunin skýrist að mestu leyti af færri íbúðum á seinni stigum, sem líklega stafar af umhverfinu sem framkvæmd og fjármögnun þeirra íbúða átti sér stað í, þegar sölutími var langur og mun erfiðar gekk að selja en í dag. Aftur á móti hefur íbúðum á fyrstu stigum fjölgað mikið á síðustu mánuðum, en er það nóg? Það virðist nokkuð óvíst enda ber spám ekki saman. Samtök iðnaðarins gera ráð fyrir að töluvert færri íbúðir komi inn markaðinn næstu tvö ár heldur en 2019 til 2021,“ segir í greiningunni.